NTC

Aflið – Samtök fyrir þolendur ofbeldis 22 ára

Aflið – Samtök fyrir þolendur ofbeldis 22 ára

Aflið – Samtök fyrir þolendur ofbeldis urðu 22 ára gömul í gær, en samtökin voru stofnuð þann 18. apríl 2002. Aflið veitir þolendum ofbeldis og aðstandendum þeirra stuðning og ráðgjöf í formi viðtala og námskeiða og hefur verið ómetanlegt úrræði fyrir Norðlendinga í þeirri stöðu í meira en tvo áratugi.

Í dag veitir Aflið ekki bara þjónustu á Akureyri, heldur einnig á Blönduósi, Egilsstöðum, Húsavík, Reyðarfirði og hefur nýverið einnig farið að bjóða þjónustu á Siglufirði, auk þess að veita fjarþjónustu til fólks um land allt.

Fyrir tilviljun átti fréttaritari viðtal við Sæunni Ísfeld Guðmundsdóttur, einn af stofnendum Aflsins, í dag vegna annarar fréttar. Sagði hún þá frá afmæli Aflsins og talaði um fyrstu skref samtakanna í örlitlu herbergi á Glerárgötu.

Minnist hún þess þegar hún fékk símtal frá skjólstæðingi ekki svo löngu eftir stofnun samtakanna, en eiginmaður hennar svaraði símanum: „Hún er svolítið upptekin núna, er í lagi að hún hringi til baka?“ Sagði hann í símann, „Takk kærlega fyrir, hún er nefnilega að eignast barn.“

Þannig var staðan hjá Aflinu í þá daga, ráðgjafar voru enn fáir en þörfin mikil, svo jafnvel þegar Sæunn lá í miðjum hríðum þá hringdi síminn. Svo fór þannig að hún hringdi að sjálfsögðu til baka í skjólstæðinginn og alls ekki svo löngu seinna, því fæðingin tók ekki nema sex tíma: „Það var svo mikið að gera, það þýddi ekkert að vera neitt lengur að þessu“ segir Sæunn og hlær.

Frekari upplýsingar um starfsemi Aflsins er hægt að finna á heimasíðu þeirra aflidak.is eða með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI