NTC

„Áhyggjupési“ knúinn áfram af einlægum áhuga á tungumálinu – Rithöfundurinn Einar Lövdahl kynnir nýja skáldsögu.Ljósmynd: Hörður Sveinsson.

„Áhyggjupési“ knúinn áfram af einlægum áhuga á tungumálinu – Rithöfundurinn Einar Lövdahl kynnir nýja skáldsögu.

Rithöfundurinn Einar Lövdahl gaf frá sér sína fyrstu skáldsögu á dögunum og ber hún nafnið Gegnumtrekkur. Er hann á leið norður nú um páskahelgina og verður hann með upplestur á bókinni og tónleika í Eymundsson á Akureyri klukkan 15:00 á laugardaginn, 30. mars.  Fréttaritari ræddi við Einar um nýju bókina og ritlistina almennt.

Hefur alltaf skrifað

Eins og áður segir er Gegnumtrekkur fyrsta skáldsaga Einars, en hann á þegar langan feril að baki í ritlist þrátt fyrir ungan aldur. Frá árinu 2013 hefur Einar unnið sem textahöfundur fyrir landsfrægt tónlistarfólk á borð við Jón Jónsson, GDRN, Helga Björns og Jóhönnu Guðrúnu. Einnig hefur Einar gefið út eigin tónlist, fengið útgefið smásagnasafn eftir sig og aðstoðað við að skrifa ævisgöu hálfnafna síns og Akureyringsins Arons Einars Gunnarsonar. Hann segir þessi ýmsu verkefni tengd skrifum öll tengjast: „Ritaður texti er form sem bara liggur ágætlega fyrir mér … Þetta er allt sprottið upp úr einlægum og innilegum áhuga á tungumálinu okkar.”

Gegnumtrekkur

Markmið Einars var alltaf að gefa á endanum út bækur, en hann segir önnur verkefni, allt frá textasmíði til blaðamennsku, hafa verið hluti af því að slípa sinn stíl og læra að fara með tungumálið. Nú hefur hann komið út með þessa fyrstu skáldsögu sína, sem lýst er á kápunni sem „hnyttin og heiðarleg skáldsaga um stritið við að standa í lappirnar í vindasamri tilverunni og í samskiptum við sína nánustu.“ Strax í fyrstu söluviku var bókin mest selda skáldsagan í Pennanum Eymundsson um land allt og stendur nú í 1. sæti Metsölulista Bókarbúðar Forlagsins.

Sagan fjallar um Ask, sem er reykvískur „náungi á þrítugsaldri sem er svolítið hræddur við lífið.“ Einn daginn á hann að sækja móður sína á flugvöllinn, sem hann hafði ekki séð frá því hann var unglingur. Það reynist Aski ofviða og hann stingur af út á land.

Söguna segir Einar vera uppskáldaða frá A til Ö, en að sjálfsögðu dragi rithöfundar alltaf að einhverju leyti úr eigin reynsluheimi. Það sem Einar og Askur eiga kannski helst sameiginlegt er að þeir eru báðir talsverðir „áhyggjupésar,“ eins og Einar orðar það: „Ég er bara heppnari en Askur með það að gera að ég hef gott bakland á bakvið mig.“

Tónlistin

Eins og áður kemur fram er viðburðurinn í Eymundsson á laugardaginn ekki einungis upplestur, heldur tónleikar líka. Árið 2013 gaf Einar út sólóplötuna sína Tímar án raða, en tónlistin sem hann flytur á laugardaginn eru flest lög sem enn eru í vinnslu og væntanleg til útgáfu. Að sameina tónleika og upplestur á skáldsögunni þótti Einari frekar rökrétt, en að einhverju leyti kallast textarnir á við söguna. Á meðan hann skrifaði skáldsöguna tók hann sér oft hlé með því að standa upp og „glamra aðeins á gítarinn.“ Þess vegna eru nær öll lögin sem hann mun flytja á laugardaginn samin á sama tíma og skáldsagan Gegnumtrekkur, svo þemu og tilfinningar sem textarnir eiga við koma einnig fram í sögunni.

Einar mun líka halda bæði upplestur og tónleika á Gísla, Eirík, Helga á Dalvík klukkan 20:30 á laugardagskvöld, en fjölskylda hans á hús á Dalvík og á hann ættir að rekja til Svarfaðardals. Einar myndi þó seint flokkast sem Svarfdælingur sjálfur, en hann fæddist í Bandaríkjunum og bjó þar fram til sex ára aldurs, þegar hann flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó