Framsókn

Jákvæð áhrif af breytingum á gjaldskrá leikskóla

Jákvæð áhrif af breytingum á gjaldskrá leikskóla

Frá og með síðustu áramótum voru gerðar umtalsverðar breytingar á gjaldskrá leikskóla og afsláttargjöldum. Nú þegar eru komnar fram sterkar vísbendingar um að þær hafi jákvæð áhrif á skólastarfið. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar sem má lesa í heild hér að neðan:

Breytingarnar fólu í sér 6 tíma gjaldfrjálsan leikskóla á skólatímanum frá kl. 8-14 og tekjutengdan afslátt af skólagjöldum utan þess tíma. Haustið 2023 voru að auki innleiddir svokallaðir skráningardagar þar sem foreldrar skrá börnin sín sérstaklega telji þeir sig þurfa að nýta þá daga. Hafa skráningardagarnir einnig gefið góða raun.

Um þessar mundir eru flestir leikskólar fullmannaðir kennurum og öðru starfsfólki. Þar sem skólatími barna hefur styst hefur námsumhverfi og skipulag dagsins í leikskólunum orðið afslappaðra, áreiti hefur minnkað og samvera starfsfólks með börnum síðdegis hefur aukist og skilað sér í meiri gæðum í skólastarfinu. Að sögn Kristínar Jóhannesdóttur, sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs, lítur út fyrir að breytingin hafi skapað aukið svigrúm til að mæta kjarasamningsbundnum kröfum um betri vinnutíma starfsfólks og margt bendir til þess að álagið hafi minnkað. Samkvæmt upplýsingum frá sérkennslustjórum leikskólanna hefur breytingin leitt af sér rólegra andrúmsloft, börnin séu færri seinnipartinn og slíkt gefi góða raun þar sem þreytan sé oft farin að sækja í barnahópinn á þeim tíma, færri börn séu á hvern starfsmann og færri börn í rýmum síðdegis. Einnig að börnum í viðkvæmri stöðu líði betur, þau séu rólegri og í betra tilfinningalegu jafnvægi og síður verði vart við árekstra síðdegis.

Breytingar á skráningum foreldra hafa leitt til þess að meðalskólatími barna hefur farið úr 8,04 klukkustundum í 7,63 klukkustundir frá október 2023 til mars 2024. Það þýðir að leikskólabarn ver að meðaltali 24 mínútum styttri tíma á dag í leikskólanum en var fyrir áramót. Nú nýta foreldrar um 100 barna í leikskólum bæjarins gjaldfrjálsan tíma frá kl. 8-14 að fullu en þar að auki nýta þónokkrir foreldrar þennan möguleika að hluta til. Umsóknir um breytingu á skólatíma eru enn að berast og tekur skólatími því stöðugum breytingum.

Frá áramótum hefur örsjaldan þurft að beita aðgerðum vegna lágmarksmönnunar í leikskólunum. Slíkar aðgerðar felast í því að biðja forelda að sækja börn sín í skólann en þeim neyðarráðstöfunum er beitt komi upp þær aðstæður að öryggi barna telst ekki tryggt vegna manneklu og ábyrgð þess starfsfólks sem er eftir í vinnunni sé of mikil. Slík inngrip voru orðin nokkuð tíð undir lok síðasta árs þegar álagið var sem mest.

Í aðdraganda breytinga vegna 6 tíma gjaldfrjáls leikskóla voru haldnir kynningarfundir fyrir foreldra leikskólabarna þar sem fyrirhugaðar tillögur voru kynntar og í kjölfarið hefur Akureyrarbær lagt sig fram um að vinna úr ábendingum frá foreldrum. Til dæmis er eftir fremsta megni reynt að koma til móts við fólk sem óskar eftir sveigjanlegum skólatíma fyrir börn sín, t.d. vegna þess að það vinnur vaktavinnu.

Eins og fyrr segir voru tekjutengdir afslættir innleiddir samhliða þessum breytingum. Þrátt fyrir innleiðingu gjaldfrjáls tíma milli kl. 8 og 14 jukust afslættir til foreldra um 60% frá desember 2023 til mars 2024. 

Megintilgangur með ofangreindum breytingum var að vinna að bættu starfsumhverfi barna og starfsfólks leikskóla í kjölfar áskorana sem komu fram við innleiðingu á styttingu vinnutíma. Ljóst er að sterkar vísbendingar eru um að þeim tilgangi sé að einhverju leyti náð. Gefa þarf verkefninu lengri tíma og leggja mat á breytingarnar í heild sinni þegar meiri reynsla er komin á það.

Sambíó

UMMÆLI