Í gær, 14. mars 2024, voru liðin 40 ár síðan fyrsta ERCP (gallvegaspeglun) var framkvæmd á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Fyrsta gallvegaspeglunin í heiminum var framkvæmd 1968 en á SAk 1984. Þetta kemur fram á vef SAk.
„Árstölur frá 1995-2023 sýna að það eru framkvæmdar að meðaltali 45 gallvegaspeglanir á ári. Þegar gallvegaspeglanir hófust voru þær framkvæmdar í þeim tilgangi að greina sjúkdóma en nú eru þær að mestu framkvæmdar í meðferðartilgangi. Við gallvegaspeglun er farið með speglunartæki niður í skeifugörn og gallganga- og brisgangsopið (papilla of Vaterii) staðsett og þrætt með mjúkum leiðara. Oftast er verið að fjarlægja gallsteina sem hafa fest í gallgangi (choledochus) og valdið m.a. brisbólgu eða gallvegabólgu. Þegar þarf að fjarlægja gallsteina þarf að skera upp hringvöðvann í gallganga-og brisopinu því annars komast steinarnir ekki út. Oft þarf að koma fyrir röri (stent) í gallganginn ef steinninn næst ekki út við fyrstu tilraun eða ef þrengsli eru í gallvegunum hvort heldur sem af völdum gallvegasjúkdóma eða krabbameina,“ segir í tilkynningu Sjúkrahússins á Akureyri.
Þeir sjúklingar sem þurfa að koma í gallvegaspeglun eru þeir sem eru með stíflugulu vegna fyrirferðar, þrengingar eða gallsteina. Gallvegaspeglanir eru framkvæmdar á LSH og SAk.
„Það er mikill ávinningur að geta framkvæmt þessa sérhæfðu og flóknu aðgerð hér fyrir norðan. Það er fyrst og fremst betri þjónusta við landsbyggðina og ekki þarf að senda sjúklinga í sjúkraflugi til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn,“ segir á vef SAk.
Síðastliðin ár hafa orðið þær breytingar að alltaf er fengin aðstoð svæfingalækna sem gerir aðgerðina bæði öruggari og auðveldari fyrir alla sem að koma.
„Einnig höfum við byrjað á að framkvæma samblandaða gallvegaspeglun og gallblöðrutöku á skurðstofu sem kallast rendezvous. Þær aðgerðir byrjuðu hjá okkur árið 2019. Þeir sjúklingar sem undirgangast slíka aðgerð eru þeir sem eru með gallblöðrubólgu af völdum gallsteina og auk þess með gallsteina fasta í gallgangi. Þá eru báðar aðgerðir framkvæmdar á sama tíma. Rendezvous er aðeins framkvæmt á SAk á Íslandi,“ segir Guðmundur Otti Einarsson yfirlæknir lyflækninga við Sjúkrahúsið á Akureyri.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Nick Cariglia lyf- og meltingarsérfræðing bregða á leik með Sigurði M. Albertssyni yfirlækni í skurðlækningum í bráðabirgðaraðstöðu sem sett var upp þegar ERCP stofa var lokuð tímabundið.
„Það hefur náðst góður árangur í þessum aðgerðum á SAk og er teymið byggt á meltingalæknum, skurðlækni, speglunarhjúkrunarfræðingum, geislafræðingi, svæfingarhjúkrunarfræðing og svæfingalækni.“
Uppfært: Fyrsta gallvegaspeglunin í heiminum var framkvæmd 1968 en á SAk 1984. Sú speglun var framkvæmd af Nick Cariglia meltingarsérfræðingi og fyrrum forstöðulækni lyflækningadeildar sem lengst af sá um þessar speglanir á SAk ásamt Sigurði Albertssyni yfirlækni á skurðlækningadeild.
UMMÆLI