Knattspyrnulið Þór og KA mætast í baráttunni um Akureyri á morgun, laugardag, í lokaumferð Inkasso-deildarinnar. Leikurinn fer fram á Þórsvelli og hefst klukkan 13:00
KA-menn tryggðu sér efsta sæti deildarinnar um síðustu helgi þegar liðið vann sigur á Grindavík og fengu þeir bikarinn afhentan að leik loknum. Leikurinn á morgun skiptir því litlu máli fyrir bæði lið þó Þórsarar vonist til að lyfta sér upp um eitt sæti og enda þar með í 3.sæti deildarinnar.
Sú hugmynd kviknaði hjá KA-mönnum á dögunum að Þórsarar myndu standa heiðursvörð um nýkrýnda meistarana eins og tíðkast jafnan í ensku úrvalsdeildinni. Viðraði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA, þá hugmynd meðal annars í viðtali við Morgunblaðið í vikunni.
Samkvæmt okkar heimildum var málið rætt innan herbúða Þórs og verður spennandi að sjá hvort af því verði á morgun að Þórsarar standi heiðursvörð um erkifjendur sína.
Það verður sannkölluð knattspyrnuveisla á Þórsvelli á morgun því eftir að strákarnir hafa lokið sér af munu Þór/KA og Fylkir mætast í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna.
UMMÆLI