Framsókn

Oddur Gretarsson skrifar undir samning hjá Þór

Oddur Gretarsson skrifar undir samning hjá Þór

Handboltamaðurinn Oddur Gretarsson mun snúa heim til Íslands eftir 11 ár í Þýskalandi eins og kom fram á Kaffið.is í gær. Nú er orðið ljóst að Oddur mun spila með handboltaliði Þórs þegar hann kemur heim til Íslands.

Oddur hefur samið við handknattleiksdeild Þórs um að leika með félaginu næstu árin. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins í dag. Oddur er uppalinn Þórsari og spilaði með yngri flokkum og meistaraflokki félagsins. Hann spilaði fyrsta leikinn með meistaraflokki Þórs 15 ára gamall og í framhaldi af því með Akureyri handboltafélagi frá tímabilinu 2007/2008 og var valinn íþróttamaður ársins árið 2010 hjá félaginu. Oddur hélt utan í atvinnumennsku í Þýskalandi þegar hann samdi við úrvalsdeildarfélagið Emstetten sumarið 2013. 

Sjá einnig: Oddur Gretarsson á leið heim til Íslands

Oddur hefur verið í atvinnumennsku í Þýskalandi í 11 ár, þar af undanfarin sjö ár með Balingen-Weilstetten, hvort tveggja í efstu og næstefstu deild, en liðið leikur um þessar mundir í efstu deild. Félagið hefur tilkynnt um brotthvarf Odds og nú hafa þau ánægjulegu tíðindi verið staðfest af stjórn handknattleiksdeildar Þórs að hann hefur ákveðið að koma heim, ekki aðeins til Íslands heldur heim í Þorpið. Oddur hefur undirritað samning þess efnis og verður klár í slaginn með Þórsliðinu í haust. 

„Ljóst er að um mikinn liðsstyrk er að ræða fyrir félagið að fá þennan reynda landsliðs- og atvinnumann í okkar raðir. Oddur er fæddur 1990 og verður því 34ra ára á árinu. Hann spilar stöðu vinstri hornamanns, eins og Þórsarar vita væntanlega,“ segir í tilkynningu Þórsara.

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, er gríðarlega ánægður með að fá Odd heim og segir á heimasíðu Þórs það vera hvalreka fyrir félagið. „Hann er reynslumikill leikmaður með ótrúlegan feril að baki. Þetta er það sem við stefnum að auðvitað, að reyna að búa til umgjörð og lið sem uppalda Þórsara langi til og vilji snúa heim í og er Oddur stórt skref í þá átt,“ segir Halldór Örn.

Hann bendir einnig á mikilvægi Odds fyrir félagið í víðara samhengi og dáist að þeirri tryggð sem hann sýnir uppeldisfélaginu. „Oddur er ekki bara mikilvægur fyrir meistaraflokkinn heldur líka yngri flokka félagsins. Hann sýnir ótrúlega tryggð við uppeldisfélagið með því að koma heim í Þorpið. Mikil vinna er að baki og sýnir að Þór er í sókn í öllum deildum félagsins. Ég hlakka mikið til að vinna með Oddi og erum við mjög spenntir að fá hann inn með alla hans reynslu. Hann vill ná árangri með sínu félagi og við munum vinna áfram að þeirri stefnu sem við höfum mótað. Ég hlakka til að horfa á fleiri fara að fordæmi Odds, að koma heim og sýna þessa tryggð,“ segir Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórsliðsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó