Lokið er við að mála ísfisktogara Samherja, Kaldbak EA 1, í Slippnum á Akureyri, auk þess sem unnið var að ýmsum fyrirbyggjandi endurbótum. Ekki er langt síðan lokið var við svipaðar endurbætur á systurskipum Kaldbaks, Björgu EA 7 og Björgúlfi EA 312.
Sigurður Rögnvaldsson verkefnastjóri hjá útgerðarsviði Samherja segir að verkið hafi tekið um fjórar vikur og allar tímaáætlanir hafi staðist. Auk starfsfólks Slippsins komu nokkrir verktakar að endurbótunum. Hann segir mikilvægt að allur undirbúningur slíkra verkefna sé vandaður.
Skipin í góðu ásigkomulagi
„Skrokkur skipsins var málaður, einnig millidekk og lestarrými. Kaldbakur er sjö ára gamalt skip og þess vegna þótti skynsamlegt að ráðast í nokkrar endurbætur, svo sem upptekt á aðalvél og lagfæringar á stýrisbúnaði. Þessi systurskip hafa reynst afskaplega vel í alla staði en með tímanum þarf auðvitað að huga að fyrirbyggjandi endurbótum og þeim er nú lokið. Við getum hiklaust sagt að skipin séu í topp standi, þökk sé útgerð og áhöfnum skipanna.“
Skrúfan máluð til að draga úr olíunotkun
Skrúfan á Kaldbak var máluð með hágæða botnmálningu, sem ætlað er að draga úr olíunotkun. Skrúfan á Björgu EA var einnig máluð fyrir nokkru síðan með sömu málningu.
„Yfirleitt eru skrúfur skipa ekki málaðar en tilraunir með það hafa verið gerðar á undanförnum árum. Málningin hindrar að gróður festist á skrúfunni, sem eykur viðnám hennar í sjónum og þar með olíunotkun. Það er vissulega erfitt að mæla árangurinn nákvæmlega en við höfum trú á að þessi hágæða málning komi til með að skila tilætluðum árangri,“ segir Sigurður Rögnvaldsson.
UMMÆLI