Á mánudaginn voru undirritaðar á velferðarsviði Akureyrarbæjar kröfulýsingar í þjónustu við fatlað fólk. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins þar sem segir að sveitarfélagið veiti fötluðu fólki umfangsmikla þjónustu því að kostnaðarlausu og hafi einnig samninga um ráðgjafarþjónustu við sveitarfélögin í kring.
Á árinu 2022 var ákveðið að koma á fót innra eftirliti með þjónustu Akureyrarbæjar í málaflokki fatlaðs fólks. Til þessa verkefnis var ráðin Ellý Alda Þorsteinsdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Í framhaldi af þeirri vinnu var ákveðið að setja skriflega fram kröfulýsingar fyrir alla þjónustu sem velferðarsvið veitir í málaflokknum og voru þær unnar í samvinnu við forstöðumenn. Kröfulýsing er sett fram fyrir hverja starfsstöð en um er að ræða heimili, skammtímadvalir og vinnu- og virknistaði.
Í kröfulýsingu er fjallað um hlutverk og meginmarkmið þjónustunnar, rekstur og skipulag. Þjónusta við einstaklinga er skilgreind m.a. að gera skuli einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir og annað sem snertir einstaklinga með beinum hætti svo sem þjónustuöryggi.
Hlutverk kröfulýsinga er að skilgreina lágmarkskröfur til þjónustunnar en þær eru lagðar til grundvallar þegar velferðarsvið, eða fulltrúar þess, taka út starfsemina. Kröfulýsingarnar eru þannig hluti af gæðaeftirliti í málaflokknum.
Myndin var tekin við undirritun kröflulýsinganna. Í aftari röð frá vinstri eru forstöðumenn í þjónustu við fatlað fólk; Ragnheiður Júlíusdóttir, Kristinn Már Torfason, Guðrún Guðmundsdóttir, Arnar Eyfjörð, Svanborg Bobba Guðgeirsdóttir og Hlynur Már Erlingsson. Á myndina vantar Örnu Jakobsdóttur, Ólaf Má Torfason, Sísý Malmquist og Önnu Einarsdóttur. Sitjandi eru Karólína Gunnarsdóttir, þjónustustjóri á velferðarsviði, og Guðrún Sigurðardóttir, sviðsstjóri. Mynd: Akureyri.is
UMMÆLI