NTC

Tölvubúnaður úr VMA fær framhaldslíf í Burkina Faso

Tölvubúnaður úr VMA fær framhaldslíf í Burkina Faso

Adam Ásgeir Óskarsson, fyrrverandi kennari og kerfisstjóri í VMA, kom í liðinni viku til Íslands eftir um hálfs mánaðar dvöl í Burkina Faso í Afríku. Þar vann hann ásamt fleirum að því að setja upp tölvbúnað í skóla í Bobo Dioulasso, sem áður var notaður í VMA. Þetta kemur fram á vef VMA.

Þetta var mjög góð og gefandi ferð og okkur tókst að gera það sem lagt var upp með, að skipta út tölvum í tölvustofu skólans og nettengja þær og fá þær til að virka vel saman á innra neti skólans. Hins vegar er internetsambandið, sem byggir á örbylgjutækni, eftir sem áður slitrótt. Það er framtíðarverkefni að finna mögulega lausn á því,“ segir Adam á vef VMA.

Fyrir um tveimur árum var tölvubúnaður í VMA endurnýjaður og fartölvur komu í stað borðtölva og skjáa. Fyrir rösku ári fór Adam fyrst til Bobo Diolasso, sem er næststærsta borg Burkina Faso í vesturhluta Afríku, á vegum ABC barnahjálpar á Íslandi og komst að raun um að í skólanum Ecole ABC de Bobo væri rík þörf fyrir betri tölvubúnað fyrir nemendur. Þar voru 15-20 ára gamlar Windows tölvur sem höfðu fyrir löngu sungið sitt síðasta. Adam gekk því í málið og fékk VMA til liðs við sig sem lét honum í té um hundrað HP- og Dell-tölvur sem hafði verið skipt út. Adam  stækkaði í þeim minnið og uppfærði þær að öðru leyti. Síðan var allur tölvubúnaðurinn sendur sl. vor í gámi til Burkina Faso til uppsetningar. Til stóð að hann yrði kominn til Burkina Faso í október og í þeirri trú fór Adam þá til Bobo Diolasso. En af ýmsum ástæðum tafðist að gámurinn skilaði sér. Hann kom loks á áfangastað í nóvember sl. Því fór Adam og fimm aðrir Íslendingar til Burkina Faso í byrjun febrúar –  hjónin Jóhanna S. Norðfjörð og Haraldur Pálsson, Aðalgeir Sigurðsson, Jón Sverrir Friðriksson – öll frá Akureyri – og Magnús Kristinsson rafeindavirki hjá Origo Lausnum í Reykjavík.

Adam og Magnús unnu baki brotnu við að koma tölvubúnaðinum fyrir á sínum stað við mikla gleði og ánægju nemenda og kennara. Í tölvustofunni eru nú 64 nettengdar tölvur, skjávarpi o.fl. Einnig voru settar upp VMA-tölvur á heimavist fyrir stúlkur í svokölluðu Líflandi sem ABC barnahjálp stendur að. Í Líflandi er starfrækt svína- og hænsabú auk viðamikillar ræktunar á mat.

Með þessum nýja tölvubúnaði í nettengdu tölvuveri skólans opnast fjölmargir nýir möguleikar í kennslu sem Adam segir að kennarar þar eigi eftir að fikra sig áfram með. Þetta er mikil og jákvæð breyting fyrir skólastarfið, er óhætt að segja.

Ítarlegri grein um þetta flotta framtak og fleiri myndir má finna á vef VMA með því að smella hér.

VG

UMMÆLI

Sambíó