Leikarinn Jón Gnarr er um þessar mundir búsettur á Akureyri þar sem að hann tekur þátt í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á verkinu And Björk of course… Jón nýtur lífsins á Akureyri og þá sérstaklega umhverfisins.
Jón hefur nú verið í bænum í um mánuð en hann segir í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni að hann fari út að labba með hundinum sínum Klaka á hverjum degi og að þeir labbi að minnsta kosti 10 kílómetra daglega.
„Einsog fram hefur komið er ég göngugarpur. Við Klaki löbbum amk 10 km á dag. Ég er nú búinn að labba um alla Akureyri enda búinn að vera hér í mánuð og labba 258 km. Auðvitað búinn með Krossanesborgir en nú eru það Naustaborgir ! Að hafa aðgang að svona sælu eru einhver mestu lífsgæði sem til eru,“ skrifar Jón á Facebook.
Leikstjóri And Björk, of course.. er Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikhópurinn samanstendur af Jóni Gnarr, Sverri Þór Sverrissyni (Sveppa), Eygló Hilmarsdóttur, Örnu Magneu Danks, Davíð Þór Katrínarsyni, Maríu Pálsdóttur og Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir. Sýningar fara fram í Samkomuhúsinu og frumsýning er 23. febrúar næstkomandi.
„Þetta leikrit er búið að hreyfa við allskonar innra með mér. Svo brjálæðislega fyndið en um leið svo nístandi satt og afhjúpandi. Við frumsýnum í lok febrúar og ég hlakka mikið til að sjá ykkur,“ segir Jón um sýninguna.
UMMÆLI