Nýr tengigangur hugsanlega tekinn í notkun í apríl

Nýr tengigangur hugsanlega tekinn í notkun í apríl

Vinna við tengigang Sjúkrahússins á Akureyri er vel á veg komin og bjartsýnustu spár segja að hann verði tekinn í notkun í apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SAk. Þar segir einnig að þessa dagana sé verið að setja upp glerveggi og vinna að lokafrágangi líkt og loftræstingu, raflagnavinnu, dúklagningu, kerfislofti og málningarvinnu. Í framhaldinu komi innréttingar og tæknibúnaður.

Tengigangurinn er á þriðju hæð sjúkrahússins og tengir fæðingardeild við barnadeild. Einnig mun tengigangurinn hýsa nýtt og rýmra hermisetur og færist starfsfólk mennta- og vísindadeildar í heild sinni á ganginn. Þá verður á ganginum nýtt og glæsilegt fyrirlestrarými, nokkur fundarherbergi ásamt fjölda skrifstofa.

„Við erum búin að bíða lengi eftir tengiganginum sem verður þörf viðbót við húsnæði sjúkrahússins. Ég hef áður gert mér væntingar um að ársfundurinn verði haldinn á tengiganginum en nú ætti það að ganga upp,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk á vef sjúkrahússins.

Ljósmynd fengin úr tilkynningu á vef SAk

UMMÆLI

Sambíó