Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir var sigursæl á heimsmeistaramótinu „The Summit“ í latínskum dansi sem fór fram í Orlando í Bandaríkjunum í síðustu viku. Stefanía nældi sér meðal annars í gullverðlaun í Salsa heats dansi þar sem hún dansaði með Mariano Neris, þjálfara sínum.
Þá fékk hún silfurverðlaun í Bachata heats og í Chacha heats newcomer division. Heats er þegar geta dansara er dæmd út frá því hversu vel þau spinna þegar óvænt lag kemur upp. Þá vann hún einnig til silfurverðlauna í pro-am partner work dansi.
Stefanía segist í spjalli við Kaffið.is vera stolt og glöð með árangurinn á mótinu en þetta er í fyrsta sinn sem hún vinnur til verðlauna í paraflokki. Í nóvember á síðasta ári vann hún til bronsverðlauna á Mega dans weekend keppninni í Uppsala í Svíþjóð með danshópnum Bellasitas.
„Ég er mjög satt og ég átti alls alls ekki von á þessu. Ég var bara spennt fyrir því að fá að keppa og eina markmiðið sem ég hafði var að hafa gaman og njóta þess,“ segir Stefanía.
Stefanía hefur æft latínska dansa undanfarin tvö ár en hún fór með sjö öðrum dönsurum úr Dansakademi skólanum í Malmö og þjálfurum þeirra Bellu Malekian og Mariano Neris. Stefanía flutti til Malmö til þess að stunda háskólanám árið 2021 og ákvað að skrá sig þar í dansskólann og læra latínska dansa. Hún hafði nokkrum árum áður lært grunnskrefin þegar hún var sem skiptinemi í Costa Rica og varð frá og með þeirri stund ástfangin af spænskri tónlist.
Stefanía segir í samtali við Kaffið að hún ætli sér að halda áfram að dansa og æfa sig á meðan henni finnst það skemmtilegt. Í maí mun hún keppa á sænska meistaramótinu í latínskum dansi.
Þau sem hafa áhuga á að fylgjast með Stefaníu geta gert það á samfélagsmiðlum hennar @stefaniajohonnud á Instagram.
UMMÆLI