Framsókn

Verkefnið Að tala og læra íslensku í skólum hlaut styrk

Verkefnið Að tala og læra íslensku í skólum hlaut styrk

Mennta- og barnamálaráðherra úthlutaði styrkjum úr Menntarannsóknarsjóði í desember síðastliðnum. Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Kennaradeild háskólans, hlaut tæplega 31 milljóna króna styrk í verkefnið „Að tala og læra íslensku í skólum“ – TALÍS. Þetta kemur fram á vef HA.

Í fyrri rannsóknum Hermínu sem byggja á viðtölum við kennara og stjórnendur kemur fram að skortur hafi verið á faglegri þekkingu og hæfni innan skólanna til að mæta menntunarþörfum nemenda með fjöltyngdan bakgrunn. Hið sama má segja um kennaramenntunina. Í verkefninu eru tvær mikilvægar áherslur sem vega þungt til að mæta þessari þörf; tungumálanám sem slíkt og kennslufræðilegt skipulag sem ætlað er sérstaklega til að styðja við fjöltyngda nemendur og kennara þeirra. Verkefnið er til tveggja ára og styður vel við stefnu íslenskra stjórnvalda hvað varðar íslenskunám fyrir fjöltyngda nemendur.

„Það er afar ánægjulegt að verkefnið hafi hlotið styrk en það byggir á námsefninu Samræðufélagar sem hefur verið í þróun hjá Kennaradeild háskólans undanfarin ár í góðu samstarfi við grunnskóla bæði í Reykjavík og á Akureyri sem og Miðstöð Skólaþróunar við HA og Miðju Máls og læsis hjá Reykjavíkurborg,“ segir Hermína. Hægt er að kynna sér það verkefni hér.

Auk Hermínu munu þrír rannsakendur frá Kennaradeild vinna við rannsóknina, Finnur Friðriksson, dósent, Kristín Margrét Jóhannsdóttir, lektor og Rannveig Oddsdóttir, dósent.

Í umfjöllun um verkefnið, sem fékk hæstu einkunn matsnefndar, er sérstaklega minnst á mikilvægi samstarfsins og hagnýtt gildi rannsóknarinnar. Einnig er fjallað um hversu mikla reynslu teymið hefur af rannsóknum og kennslu. Við óskum Hermínu og teyminu öllu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og óskum þeim góðs gengis með verkefnið og rannsóknina.

Sambíó

UMMÆLI