NTC

Meingallaðar megranir

Meingallaðar megranir

Fáir tala um megranir nú á dögum enda eru flestir sammála að árangur af þeim er ansi takmarkaður. Á sama tíma eru hins vegar margir sem fara í „átak“ eða „aðhald“ eða ætla að „gera lífstílsbreytingu“. Í mörgum tilvikum eru þetta einfaldlega önnur orð yfir megrun þar sem breytingarnar fela í sér öfgakennd umskipti á hegðun. Fyrir utan þá staðreynd að megranir eru meingallaðar þá er líka mikilvægt að hafa í huga að þær geta verið stórhættulegar. En hvernig þá?

Það er einkennandi stef í megrunarmenningu að varðandi mat, þá er minna meira. Og varðandi hreyfingu, þá er meira betra. Auðvitað eru afar mismunandi forsendur á milli kúra en þetta er svona grunnurinn sem flestir þeirra fylgja. Skilaboðin eru því í stuttu máli að borða lítið og hreyfa sig mikið. Það á að auka líkur á þyngdartapi sem er jú oftast markmið með blessuðum megrunarkúrunum. En þyngdartap jafngildir ekki heilbrigði og það er ekki aðdáunarvert að borða lítið. Svo gleymist oft að þyngd og líkamslögun er að miklu leyti tengt erfðum og genum. Að stjórnast í þyngd og líkamslögun er því sambærilegt við það að breyta hæð sinni eða skóstærð. Í því samhengi verður það svolítið fáránlegt en svo er það hin hliðin, jafnvel áhættusamt. 

Hin mikla hætta sem fylgir megrunum eru af lífeðlisfræðilegum toga. Þegar líkaminn fær ekki næga orku fer hann í ákveðið sveltiástand einfaldlega til að lifa af. Líkaminn gerir nefnilega ekki greinarmun á alvöru hungursneyð eða tilbúnu svelti. Hvað gerist þá í þessu ástandi? Líkaminn hægir á öllum efnaskiptum og sparar orku eins og hann getur. Öll líkamsstarfsemi sem ekki er lífsnauðsynleg stöðvast og önnur starfsemi skerðist. Svo er líkaminn afar klár og gerir allt mögulegt til að auka líkur á því að þú fáir þér að borða. Með einbeitingarskortur og stöðugum hugsunum um mat. Með aukinni þörf til að hreyfa sig og „veiða í matinn“. Ekkert kemst að nema matur og leiðir til að afla matar. Margir kannast jú við að að byrja ósjálfrátt að tala um mat eða hugsa um mat þegar maður er svangur. Líkaminn er einfaldlega að auka líkurnar á að þú fáir þér að borða. Og ef svelti stendur yfir í langan tíma þá er rétt hægt að ímynda sér hvernig þessi þráhyggja þróast. 

Það er af þessum ástæðum sem ég segi að megranir séu stórhættulegar. Þær fimmfalda líkurnar á því að einstaklingur þrói með sér átröskun og óheilbrigt samband við mat. Og þegar þangað er komið er hægara sagt en gert að snúa til baka. 

Það er og verður alltaf ákveðinn línudans að tala um mat og holdafar án þess að skapa kveikju (e. trigger) hjá ólíkum einstaklingum. En það er allavega eitt sem við getum sammælst um og ef til vill reyna að hafa að leiðarljósi þegar við tölum um þessi málefni. Þyngdartap er ekki ávísun á heilbrigði og niðurskurður á mat verðskuldar ekki aðdáun annarra. Minna er ekki meira þegar kemur að mat. Hver og einn á að borða eins og hann þarf á þeim tímapunkti til að næra sinn líkama. Alveg óháð því hvað næsta manneskja eða nýjasti kúrinn er að segja. Af því að það að neita þér um næga orku er eins og að halda inni í þér andanum. 

*Healthy is an outfit that looks different on everybody* 

VG

UMMÆLI

Sambíó