Flugeldasala björgunarsveita opnaði víða í dag, fimmtudaginn 28. Desember. Björgunarsveitin Súlur opnaði sína flugeldasölu klukkan 10:00 í dag í höfuðstöðvum sínum við Hjalteyrargötu 12. Að sögn Jóhanns Jóhannssonar, björgunarsveitarmanns hjá Súlum, hefur salan farið mjög vel af stað og að einhverjir viðskiptavinir hafi mætt á staðinn strax klukkan 10 í morgun: „Krakkarnir eru auðvitað sérstaklega spenntir.“
Jóhann segir að salan fari alltaf tiltölulega rólega af stað en svo sé meira að gera eftir því sem gamlárskvöld nálgast. Flugeldasalan er opin frá tíu til tíu næstu þrjá daga hjá Björgunarsveitinni Súlum en á gamlársdag sjálfan verður opið til klukkan fjögur. Þar að auki verða þrír opnunardagar í aðdraganda Þrettándans 4., 5. og 6. janúar.
Merkilegt þykir að verðlagning á flugeldum hjá björgunarsveitinni er nákvæmlega sú sama og hún var um síðustu áramót, þrátt fyrir umtalsverða verðbólgu á árinu. Jóhann segir það mikið gleðiefni, en þetta hafi tekist með því að ná góðum samningum við birgja.
Þetta árið er ekki einungis hægt að versla flugelda í húsakynnum björgunarsveitarinnar. Líkt og undanfarin ár er hægt að versla flugelda hjá Björgunarsveitinni súlum á vefverslun þeirra.
Að sjálfsögðu er flugeldasalan mikilvæg tekjulind fyrir björgunarsveitir og að sögn Jóhanns er sérstaklega mikil menning fyrir því á landsbyggðinni að fólk hugsi sig ekki tvisvar um það að versla flugeldana sína af þeim. Að skjóta upp flugeldum er að hans sögn ekki það eina hefðbundna í kringum áramótin, heldur sé það að versla flugeldana oft athöfn í sjálfu sér.
Jóhann segir að það sé alltaf góð stemming í flugeldasölunni og að það sé hreinlega gaman að standa í þessu. Þangað komi fólk kátt og glatt, enda sé fólk ekki bara að versla púður í boxum heldur ákveðna upplifun og gleði. Einnig þykji börnum gaman að koma og hitta björgunarsveitarfólkið.
Jóhann tekur einnig fram að áhyggjur yfir mengun frá flugeldum séu skiljanlegar og sjálfsagt sé að gera allt sem mögulegt er til þess að minnka hana. Að hans sögn hafa miklar framfarir orðið síðustu ár og sé til að mynda búið að fjarlægja þungmálma úr flugeldunum, minnka plast til muna og tekið til ýmissa annarra ráðstafana til að minnka mengun sem komi frá þeim flugeldum sem björgunarsveitirnar selja.
Loks vildi Jóhann koma á framfæri að það sé mikilvægt að allir hjálpist að við að halda bænum hreinum eftir gamlárskvöld. Gámar undir flugeldarusl verða bæði við grenndarstöðvar hjá Bónus í Langholti og Naustahverfi sem og við Ráðhúsið.
Kaffið hvetur lesendur til þess að gæta varkárni í kringum flugelda, nota ávallt hlífðargleraugu og hafa í huga að aldrei skuli sprengja eða meðhöndla flugelda undir áhrifum áfengis.
UMMÆLI