Það kemur mér á óvart hvað margt fólk er á einhverjum matarkúr. Ketó mataræðið, lágkolvetnafæði, paleo, carnivore mataræðið, sykurlaust, ýmsar föstur og lengi mætti telja. Það koma tískubylgjur þegar kemur að mataræði alveg eins og með fatnað. Eina stundina er hættulegt að borða mikla fitu en þá næstu á hver einasta máltíð að vera löðrandi í smjöri, dýrafitu og sósum. Ég veit ekki hvað ykkur finnst en sjálfri finnst mér þetta orðið virkilega þreytt. En ef fólk vill prófa nýjasta og heitasta mataræðið þá er það þeirra val.
Ástæðan fyrir því að ég er ekki hrifin af sérstökum matarkúr er að ég veit hvað það getur verið mikil áhætta. Það að fylgja reglum þegar kemur að mat getur leitt til áráttu og þráhyggju sem mögulega þróast í átröskun. Ég hef átt í langri og erfiðri baráttu við þann sjúkdóm og óska því ekki neinum að þurfa ganga í gegnum það. Mín skoðun á mataræði er því að borða fjölbreytt, ferskt og litríkt þar sem ekkert er bannað. Allt er gott í hófi.
Mér finnst líka góð pæling að hugsa um hvernig við gefum börnunum okkar að borða. Viljum við þeim ekki allt fyrir bestu? Flestir láta börnin sína borða fjölbreytta og holla fæðu en leyfa þeim að fá sér ís, kökur eða sælgæti af og til. Á sama tíma erum við hins vegar kannski að fasta og borðum ekki með þeim morgunmat. Við erum á lágkolvetnafæði og getum því ekki borðað pizzuna á afmælinu þeirra. Eða við í erum í svo miklu aðhaldi að jólaísinn þykir hættulegur. Hvernig fyrirmyndir eru við fyrir börnin okkar? Þó að við segjum þeim ekki beint að sneiða frá kolvetni, allavega vona ég að enginn geri það, þá læra þau ótrúlega mikið af hegðun annarra. Og sérstaklega frá þeim sem börnin líta upp til. Auðvitað breytist líkaminn með aldrinum en mér finnst ansi skrýtið ef að heilu fæðuflokkarnir detta út á fullorðinsárunum.
Ég ætla hins vegar ekki að tala um mataræði heldur langar mig að deila með ykkur nýjasta markmiðinu mínu. Það snýst nefnilega um að fasta í tólf tíma. Nei, þá á ég ekki við um að neita mér um mat. Ég er að tala um símanotkunina mína, fyrst og fremst á samfélagsmiðlum og á netinu. Síðustu daga hef ég einbeitt mér að því að leggja frá mér símann klukkan átta á kvöldin og síðan kíki ég ekki á hann fyrr en eftir klukkan átta næsta morgun. Það síðasta sem ég geri á kvöldin er því ekki að skoða vefsíður og það fyrsta sem ég geri á morgnanna fer í annað en að kíkja á tölvupóstinn. Og ég verð að segja, þetta er yndislegt! Það er auðveldara að sofna, svefninn verður dýpri og dagurinn byrjar betur þegar hann byrjar ekki með símatíma.
Markmiðið mitt snýst ekki einungis um að ,,fasta“ heldur vil ég líka minnka símanotkunin yfir sjálfan daginn. Ég er mjög meðvituð um að skoða ekki símann meðan ég borða né þegar ég hitti annað fólk. Það finnst mér vera mikill dónaskapur þó að það sé afar algengt. Nú orðið nota ég aðallega símann til að hringja eða hlusta á tónlist. Þegar ég þarf að kíkja á tölvupóstinn eða langar að spjalla við fólk, þá gef ég mér frekar takmarkaðan tíma í tölvunni minni. Þó það sé þæginlegt að geta gert allt í símanum þá gerir það að verkum að við fáum aldrei frið. Skilaboð frá vinnunni, fjölskyldu, vinum. Heimabankinn, Netflix og jafnvel hitaeiningateljari. Þó að það sé ýmislegt sniðugt að finna í þessum símum, þá er ekki endilega þar með sagt að það sé svo gagnlegt að nýta sér þá. Ég mæli með að líta upp úr símanum og skoða hvað annað lífið hefur uppá að bjóða. Kannski finnst ykkur það ekkert spennandi en það er allavega ómögulegt að finna það út þegar augun eru föst við skjáinn.
*Life is what happens to you while you are looking at your smartphone*
UMMÆLI