Framsókn

Míla byggir upp nýja fjarskiptamiðju á Akureyri

Míla byggir upp nýja fjarskiptamiðju á Akureyri

Míla byggir upp nýja fjarskiptamiðju á Akureyri fyrir netumferð til og frá landinu. Er þetta fyrsta og eina netmiðjan utan suðvesturhornsins. Þar með verða notendur nettenginga á norður helmingi landsins komin með beina tengingu við sæstrengi til útlanda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Mílu.

Í gær, þriðjudaginn 5. desember skrifuðu Míla og Farice undir samning um afhendingu á útlandssambandi Farice til Mílu á Akureyri. Í kjölfar samningsins mun Míla hefja uppbyggingu nýrrar fjarskiptamiðju fyrir netumferð til og frá Íslandi á Akureyri og Farice mun bæta Akureyri við sem nýjum afhendingarstað útlandaþjónustu.

Hingað til hafa tengistaðir netumferðar til og frá landinu einungis verið staðsettir á suðvesturhorni landsins. Öll netumferð til útlanda hvaðan sem er af landinu hefur þurft að eiga viðkomu þar á leið sinni á áfangastað. Allir netnotendur á landinu, til að mynda á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, þurfa fyrst að tengjast til Reykjavíkur jafnvel þó til staðar sé sæstrengur nær notanda.

Ný netmiðja Mílu og afhendingarstaður Farice á Akureyri breytir þessu. Flæði netumferðar verður skilvirkara og samskiptaleiðir styttri. Notendur nettenginga á norður helmingi landsins verða með beina tengingu við sæstrengi til útlanda og þurfa ekki lengur að sækja allt suður eins og áður. Með nýrri netmiðju á Akureyri eykst öryggi íslenskra fjarskipta þar sem samskipti til og frá landinu eiga kost á annarri leið en gegnum suðvesturhornið. Þær jarðhræringar sem eiga sér nú stað á Reykjanesskaganum og í nágrenni hans eru áminning um mikilvægi þess að styrkja stoðir mikilvægra innviða svo sem netmiðjur.

„Vonir standa til að uppbygging netmiðju á Akureyri muni hafa mikil og góð áhrif á atvinnulífið á Norðurlandi. Hún styttir leið fjarskipta út í heim fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Það mun gera Akureyri og Norðurland að jafn ákjósanlegri staðsetningu og Suðvesturland fyrir fyrirtæki og stofnanir sem krefjast beins aðgangs að alþjóðlegum samskiptaleiðum. Þetta er svo dæmi sé tekið, sérstaklega mikilvægt í uppbyggingu og rekstri gagnavera,“ segir á vef Mílu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó