Framsókn

Yfirlýsing varðandi núverandi ástand í Palestínu: skuldbindingar og áhyggjur  

Yfirlýsing varðandi núverandi ástand í Palestínu: skuldbindingar og áhyggjur  

Starfsfólk Háskólans á Akureyri hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna núverandi ástands í Palestínu. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Við undirrituð, starfsfólk Háskólans á Akureyri, látum í ljós áhyggjur okkar af neyðarástandi í mannúðarmálum í Palestínu. Við fögnuðum nýlegu sjö daga vopnahléi  og köllum eftir uppbyggilegum viðræðum í átt að varanlegum friði. Með stuðningsyfirlýsingunni erum við að bregðast við ákalli[1] Birzeit Háskólans í Palestínu um viðbrögð frá alþjóðaháskólasamfélaginu vegna hættunnar á þjóðernishreinsunum og þjóðarmorðum gegn palestínsku þjóðinni í óhóflegum hernaðaraðgerðum Ísraelsstjórnar í kjölfar hryðjuverkaárása Hamas samtakanna þann 7. október 2023.[2]  

Við hörmum líf allra þeirra sem hafa fallið. Við erum skelfingu lostin yfir því ofbeldi sem hefur átt sér stað á Gaza undanfarnar vikur og þeim hörmulegu afleiðingum sem það hefur haft á líf óbreyttra borgara. Undanfarið hefur ofbeldi gegn Palestínumönnum á Vesturbakkanum aukist til muna. Við sem meðlimir í háskólastofnun vitum hversu mikið vald þekking og orðræða hefur í för með sér. Við teljum það vera hlutverk okkar að stuðla að réttlátari heimi og nota vettvang okkar til að tala gegn alvarlegum brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum, í stað þess að vera hlutlausir vegfarendur. Við viðurkennum frelsisbaráttu Palestínumanna sem óaðskiljanlegan þátt í víðtækari baráttu gegn kúgun, kerfislægu ofbeldi og nýlendustefnu.[3]  

Við viðurkennum rétt Palestínu og Ísraels til að lifa friðsamlega  ásamt réttinum til sjálfsvarnar sem viðurkenndur er í 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ríki hafa þó einnig skyldum að gegna þegar kemur að sjálfsvörn sem lúta að lögmætri valdbeitingu, einkum kröfum um nauðsyn og meðalhóf og banni við hefndaraðgerðum. Enn fremur getur valdbeiting aldrei verið lögmætur grundvöllur landvinnings. Meginreglur alþjóðlegs mannúðarréttar,  sem koma fram í Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við þá   og alþjóðlegum venjurétti, skulu vera virtar öllum stundum.[4] Alltaf skal vernda almenna borgara. Fréttir frá Gaza og Vesturbakkanum benda til þess að ítrekað sé brotið gegn meginreglum um nauðsyn og meðalhóf. Vísbendingar eru um að stríðsglæpir og glæpir gegn mannúð kunni að hafa verið framdir í átökunum og við fögnum rannsókn Alþjóðlega sakamáladómstólsins.  

Við höfum sérstakar áhyggjur af hættunni á hópmorði.[5] Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorðum frá 1948 er slíkt skilgreint sem hvers konar eftirfarandi verknaður, „sem framinn er í þeim tilgangi að eyða, að hluta eða í heild, þjóð-, þjóðerni-, kynþætti-eða trúarhópi, sem slíkum, a) Að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi; b) Að valda einstaklingum úr viðkomandi hóp  alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða; c) Að þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins eða hluta hans,; d) Að beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum;  e) Að flytja börn hópsins með valdi til annars hóps.“ [6] 

Þar sem óhófleg viðbrögð Ísraelsstjórnar nálgast sífellt nær því að vera þjóðernishreinsun og hópmorði er það skylda okkar sem háskólafólks að afhjúpa óréttlætið með því að leita alltaf sannleikans, halda okkur frá áróðursverkum og gera þau sem hvetja til hópmorðanna og stuðningsfólk þeirra, ábyrg fyrir gjörðum sínum. Með þessari yfirlýsingu stöndum við með þeim háskólastofnunum um allan heim sem styðja frelsisbaráttu Palestínumanna, fordæma þjóðarmorð og standa ekki hljóð hjá á meðan Ísraelsstjórn beitir þúsundir óbreyttra borgara ofbeldi fyrir allra augum.  

Samkvæmt alþjóðalögum ber öllum ríkjum skylda til að koma í veg fyrir og vinna gegn hópmorðum.[1] Skyldan kemur til þegar ríki komast að því, eða hefðu að jafnaði átt að komast að því, að alvarleg hætta sé á að hópmorð verði framið. Skylda ríkja fer eftir styrk og getu þeirra, sem „fer m.a. eftir landfræðilegri fjarlægð viðkomandi ríkis frá vettvangi atburðanna, og eftir styrk pólitískra tengsla, sem og tengsla af öllu öðru tagi, milli stjórnvalds þess ríkis og helstu gerenda atburðanna“.[2] Það er einnig á ábyrgð annarra ríkja að gera ráðstafanir til að koma ávallt í veg fyrir og refsa fyrir hópmorð í öllum aðstæðum. Þetta krefst þess einnig að önnur ríki og ríkisstjórnir þeirra endurskapi ekki og viðhaldi ráðandi orðræðu sem afmennskar palestínsku þjóðina og skapar réttlætingu fyrir endurteknu og markvissu ofbeldi gegn saklausum borgurum.  

Með þetta í huga skorum við á íslensk stjórnvöld og alþjóðasamfélagið að beita sér fyrir því að Ísraelsstjórn láti af brotum á alþjóðalögum. Brýnna aðgerða er þörf til að greiða fyrir frekari neyðaraðstoð til Gaza og stuðla að friðsamlegri lausn deilunnar til lengri tíma. Það er afar mikilvægt fyrir alþjóðasamfélagið að hafna núverandi ástandi og viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Að standa aðgerðarlaus gagnvart óbreyttu ástandi viðheldur viðvarandi álagi á palestínsku þjóðina vegna hernáms Ísraelsstjórnar og viðvarandi ofbeldis, fólksflótta, skemmdarverka á mannvirkjum, mannréttindabrota, óréttmætrar valdbeitingar og hugsanlegra stríðsglæpa.[3] 


[1] https://www.birzeit.edu/sites/default/files/upload/open_letter_from_birzeit_university_-final.pdf  

[2] https://www.un.org/unispal/document/unrwa-situation-report-1-on-the-situation-in-the-gaza-strip/ https://www.fdd.org/analysis/2023/11/12/israel-revises-october-7-death-toll-after-agonizing-forensics/  

[3] On 1 January 2015, the Government of Palestine lodged a declaration under article 12(3) of the Rome Statute accepting the jurisdiction of the International Criminal Court over alleged crimes committed „in the occupied Palestinian territory, including East Jerusalem, since June 13, 2014“. On 2 January 2015, Palestine acceded to the Rome Statute by depositing its instrument of accession with the UN Secretary-General. The Rome Statute entered into force for Palestine on 1 April 2015. https://www.icccpi.int/palestine#:~:text=On%202%20January%202015%2C%20Palestine,Palestine%20on%201%20April%202015.  

[4] UN General Assembly, Rome Statute of the International Criminal Court (last amended 2010), 17 July 1998 

[5] UN General Assembly, Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide, 9 December 1948, 78 UNTS  277 (entered into force 12 January 1951), ratified by Israel on 9 March 1950, Article 2.  

[6] UN General Assembly, Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide, 9 December 1948, 78 UNTS  277 (entered into force 12 January 1951), ratified by Israel on 9 March 1950, Article 2.  

[7] Genocide Convention, Article 1. 

[8] International Court of Justice, Application of the Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide (Bosnia and Herzegovina v. Serbia and Montenegro) 2007, paras 430-31.1. 

[9] Initial reporting on the ongoing Israeli retaliatory attacks on Gaza (Reporting Period, 7-28 October 2023), https://www.alhaq.org/advocacy/22044.html

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó