NTC

Gluggainnsetning í Hafnarstræti 88 Akureyri: Jólasaga 

Gluggainnsetning í Hafnarstræti 88 Akureyri: Jólasaga 

Í kjallara Hafnarstrætis 88 á Akureyri stendur nú yfir gluggainnsetningin ´JÓLASAGA´ og er aðgengileg öllum þeim sem eiga leið hjá. Innsetningin er verk Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og systur hennar Áslaugar Harðardóttur Tveiten öðru nafni Fröken Blómfríður.

Í glugganum má sjá ýmislegt tengt jólum fortíðar meðal annars glitrandi skrautlengjur, marglitar ljósaseríur, spariföt, skreytt jólatré, bakstursáhöld og leikföng. Efni innsetningarinnar er ekki til sölu og kemur úr ýmsum áttum m.a. frá persónulegu safni systranna.

Allt er þetta dót sem hefur verið geymt af alúð og hefur nú fengið nýjan tilgang sem er frekar marglaga að sögn Brynju. Innsetningunni er ætlað að endurspegla þá nýtni og útsjónarsemi sem oft fylgdi jólahaldi hér áður fyrr. Eins að lífga upp á umhverfið, búa til töfraheim í götunni, svolítið athvarf fyrir öll þau sem eiga leið hjá.

„Ósk okkar systra er að innsetningin skapi ekki bara gleði og jákvæð hughrif tengd liðnum jólum heldur hvetji fólk líka til að slaka á í amstri dagsins, staðsetja sig í núinu og njóta aðdraganda jólatíðarinnar. Við erum vissar um að margir munu upplifa angurværa jólagleði, rifja upp minningar og einfaldlega eiga góða stund við gluggann,“ segir Brynja.

Gestir og gangandi eru hvattir til að staldra við í Hafnarstræti 88 og njóta þess sem fyrir augu ber.

VG

UMMÆLI