Framsókn

John F. Kennedy óttaðist ekki árás Íslendinga

John F. Kennedy óttaðist ekki árás Íslendinga

Til er upptaka af símtali John Fitzgerald Kennedy Bandaríkjaforseta og vinar hans og samstarfsmanns þar sem forsetinn lýsir yfir að hann muni hvergi hvika ef ráðist verði á Bandaríkin. Upptakan er hluti af gögnum úr forsetatíð Kennedy sem nú hafa verið gerð opinber. Símtalið átti sér stað aðeins fjórum mánuðum áður en forsetinn var skotinn til bana í Dallas í nóvember 1963. Kalda stríðið var í algleymingi og stríðandi aðilar sáu skrattann í hverju horni eins og raunar efni símtalsins ber með sér.

Á upptökunni má heyra Kennedy lesa upp tilkynningu þar sem hann dregur í efa að Sameinuðu þjóðirnar muni láta til skarar skríða gegn bandarískum þegnum. Hann muni verja land og þjóð gegn öllum mögulegum árásum, sama hvaðan þær komi. Forsetinn tekur dæmi um þrjú fullvalda ríki sem hann segir ólíklegt að muni ráðast til atlögu gegn Bandaríkjunum. Tvö þessara ríkja höfðu nýlega öðlast fullveldi þegar félagarnir tveir töluðu saman í síma; Tjad árið 1960 og Samóaeyjar árið 1962. Athygli vekur að þriðja landið sem John F. Kennedy nefnir til sögunnar er Ísland. Ísland varð sem kunnugt er fullvalda ríki árið 1918.

Tók Kennedy Ísland, Tjad og Samóaeyjar sem dæmi til að undirstrika fáránleika þess að óttast árás á Bandaríkin eða felst kannski hroki í orðum forsetans sem líklega hafa verið hugsuð til heimabrúks? Sitt sýnist hverjum. Ummæli Bandaríkjaforseta og önnur tengsl hans við Ísland eru til umfjöllunar í seinni hlaðvarpsætti Sagnalistar um JFK sem fer í loftið 22. nóvember. Fyrri þátturinn er nú aðgengilegur á streymisveitunni Spotify.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó