Tískuvöruverslunin Gina Tricot opnar nýja 325 fermetra verslun á Glerártorgi á Akureyri þann 25. nóvember næstkomandi klukan 12:00. Verslunin opnar einungis tveimur dögum eftir opnun fyrstu verslunarinnar á Íslandi, í Kringlunni, sem tilkynnt var um í síðastliðinni viku.
Verslunin verður staðsett við hlið Lindex í aðalgöngugötu Glerártorgs. Gera má ráð fyrir að 6 til 8 ný störf muni skapast við nýju verslunina á Akureyri. Gina Tricot er ein af stærstu tískufatakeðjum Svíþjóðar með um 150 verslanir í 4 löndum en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borås, hjarta sænsks textíliðnaðar.
Opnun í aðalverslunarmiðstöð Akureyrar á Glerártorgi verður laugardaginn 25. nóvember klukkan 12:00. Þegar hefur verið kynnt að fyrsta verslun Gina Tricot mun opna í Kringlunni, við aðalrúllustiga þessarar vinsælustu verslunarmiðstöðvar landsins og er því fylgt beint eftir með opnun i höfuðstað norðursins.
„Þegar við ræddum hvar Gina Tricot ætti heima vorum við staðföst í að finna henni stað hér á Akureyri þar sem við höfum verið núna í næstum áratug. Þegar tækifæri bauðst til að opna hér á Glerártorgi við hliðina á Lindex vissum við að þetta væri algjörlega málið! Við erum virkilega spennt að opna fyrir frábæra tískuvöru Gina Tricot hér fyrir norðan,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Gina Tricot á Íslandi.
Með opnuninni á Glerártorgi verða verslanir þá þrjár talsins fyrir árslok, 2 verslanir ásamt netverslun www.ginatricot.is sem opnaði í mars á þessu ári.
Líkt og í Kringlunni verður aðilum gert mögulegt að taka þátt í veislunni frá upphafi en opið verður fyrir skráningar í Gina Tricot klúbbinn fyrir framan verslunarfrontinn þar sem möguleiki er á að snúa lukkuhjóli. Enginn fer heim tómhentur því gjafapoki fylgir en að auki er þátttakendum gert kleift að taka þátt í aðalveislunni og mæta í opnunina þann 25. nóvember kl. 12:00 sem fer fram undir dynjandi tónlist DJ Dóru Júlíu.
„Það er okkur sönn ánægja að bjóða Gina Tricot velkomna hingað til okkar í aðalverslunarmiðstöð Norðurlands, Glerártorg. Við höfum lagt mikið kapp á að greikka leið þeirra hingað og erum við ótrúlega spennt að geta bætt Gina Tricot við það frábæra vöruúrval sem finnst hér á torginu,”-segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Eik fasteignafélagi.
Útlit Gina Tricot verslunarinnar fylgir nýrri innréttingahönnun fyrirtækisins sem leit fyrst dagsins ljós á Drottninggatan í Stokkhólmi á síðasta ári. Hönnunin er „ofurnútímaleg“ með vísan í skandinavískan uppruna vörumerkisins þar sem ljósir litir og mjúkir tónar og viðaráferð kallast á við skjái og innréttingar sem veita innblástur og draga fram nýjustu línur Gina Tricot.
Gina Tricot á Íslandi er rekin í gegnum umboðssamning við Lóu D. Kristjánsdóttur og Albert Þór Magnússon en þess má geta að Ísland er fyrsta landið í alþjóðlegu samhengi þar sem slíku umboðsfyrirkomulagi er fyrir að fara.
„Við erum stöðugt að leita leiða til að bæta okkur og vaxa með sjálfbærum hætti. Jákvæð uppbygging Gina Tricot hefur leitt okkur til að bæta við Íslandi. Saman með okkar umboðsaðilum erum við virkilega spennt að geta boðið okkar frábæru verslunarupplifun á Akureyri“, segir Ted Boman, forstjóri Gina Tricot AB
Gina Tricot leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð, áhrif sín á umhverfið og að vera virkur þátttakandi í að skapa sjálfbærari tískuiðnað, t.d. með því að endurhanna eldri flíkur s.s. í samstarfi við hönnuði úr hönnunarháskólanum í Borås auk þess að kynna línur sem byggja á að endurvinna flíkur og efni og þannig byggja undir hringrásariðnað. Gina Tricot er einnig samstarfsaðili samtaka eins og UN Women, UNICEF og Alheimssjóð fyrir náttúruna (World Wildlife fund for nature) ásamt því að framleiða vörur undir vottunum svansmerkisins (e. The Nordic Swan Ecolabel) og GOTS (e. Global Organic Textile Standard) sem tryggir notkun bómullar framleidd með sjálfbærari hætti. Síðan 2011 hefur Gina Tricot verið aðili að Amfori, áður BSCI, sem hefur að markmiði að bæta félagslegar aðstæður og umhverfismál í aðfangakeðjunni.
UMMÆLI