Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga og haft hátt á fjórða hundrað manns í vinnu. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.
Coca Cola var vinsæll drykkur á meðal bandarískra hermanna í seinni heimsstyrjöldinni. Hvort sem um var að ræða átakasvæði í Frakklandi og Japan eða á rólegri slóðum Nýja-Sjálands og Íslands, alls staðar mátti sjá hermenn með Coca Cola flöskur. Mikil neysla og útbreiðsla á stríðsárunum er þó einnig tilkomin vegna ákvörðunar forstjóra fyrirtækisins að bjóða hverjum amerískum dáta Kók á kostakjörum á kostnað fyrirtækisins, hvar sem var í heiminum á meðan stríð geisaði – “every man in uniform gets a bottle of Coca-Cola for five cents, wherever he is and whatever it costs the company”. Auglýsingaskilti fyrir Coca Cola spruttu fram á hverju götuhorni. Jafnvel sjálfur Eisenhower hershöfðingi kallaði sérstaklega eftir samstarfi við Coca-Cola Company árið 1943. Honum varð ljóst að drykkurinn létti lundina og gæti með því lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að efla baráttuandann. Styrjöldin átti þannig stóran þátt í að kynna Kók fyrir heimsbyggðinni. Sex Coca Cola flöskur frá stríðsárunum fundust í haust á Hrafnagili. Þær eru á meðal fimm milljarða Kók-flaskna sem amerískir hermenn og annað starfsfólk hersins um allan heim drakk úr á stríðsárunum. Sex flöskur í liði „flöskunnar sem fór af stað í stríð árið 1941 og endaði með því að sigra heiminn“.
Hvít postulínsbrot merkt breska og ameríska hernum hafa fundist í töluverðu magni á Hrafnagili. Fyrst skal nefna þau bresku til sögunnar. Merkingar á þeim gefa til kynna að breski herinn hafi útvegað borðbúnað frá fleiri en einum aðila. Hvort starfsfólk allt og sjúklingar hafi snætt af og drukkið úr svo fagurlega skreyttum diskum og bollum skal ósagt látið. Hvað sem því líður þá er ljóst að á Hrafnagili hafa einhverjir borðað af diskum merktum fyrirtækjunum „Ashworth & Bros.“ og „Salisbury Crown China Co“. Bæði fyrirtækin koma frá borginni Stoke í Englandi en þar liggja rætur leirkeragerðar í Englandi og gengur Stoke því oft undir nafninu The Potteries. Ashworth & Bros. hefur frá árinu 1862 framleitt diska, bolla og fleira í þeim dúr. Samningur milli fyrirtækisins og breska ríkisins um framleiðslu og sérmerkingar á vörum fyrir breska herinn var í gildi á stríðsárunum. Til aðgreiningar frá vörum á almennum markaði var sérstakt merki stimplað á borðbúnaðinn ásamt ártali – bókstafurinn W inn í tígli. Annað og enn skemmtilegra merki sem greina má á bresku postulínsbrotunum á Hrafnagili er fangamark (Royal cypher) Georgs 6. Bretakonungs (ríkisár 1936-1952). Allt frá tímum Hinriks 8. hafa drottningar og konungar Bretlands skartað þeirra eigin konunglega fangamarki. Fangamark Georgs 6. er Tudor kórónan með skrautstafina G (George) og R (Rex (latína fyrir king / ruler)) og rómversku tölustafina VI á milli þeirra. Fangamark Elísabetar heitinnar Bretadrottningar inniheldur St. Edward´s kórónuna. Til gamans má geta þess að fangamark Karls 3. Bretakonungs var afhjúpað fyrir ekki svo löngu. Þar birtist Tudor kórónan aftur. Gárungarnir segja að Karl sé þarna vísvitandi að vísa til afa síns og áranna sem hann ríkti sem konungur.
Ítarlegri umfjöllun um gripina á Hrafnagili auk fjölmargra mynda má nálgast á heimasíðu Grenndargralsins, www.grenndargral.is.
UMMÆLI