NTC

Glæsilegur árangur akureyrskra glímukappa á ÍslandsmótiFrá vinstri til hægri: Hallgrímur, Bjarki, Breki, Amos og Pavel. Ljósmynd: Thomas Pálsson.

Glæsilegur árangur akureyrskra glímukappa á Íslandsmóti

Íslandsmót fullorðinna í bardagaíþróttinni brasilíski jiu-jitsu fór fram í Reykjavík í dag og snúa Akureyringar heim af því með tvö gull, tvö silfur og eitt brons. Íþróttin er form af uppgjafarglímu þar sem tveir einstaklingar takast á með það að markmiði að skora stig eða ná svokölluðu uppgjafartaki. Stig fást fyrir það að bæta eigin stöðu á kostnað andstæðingsins, t.d. með því að kasta honum í gólfið, koma sér ofan á hann eða aftur fyrir bak hans. Uppgjafartaki er náð með því að fá andstæðinginn til þess að gefast upp vegna sársauka eða óþæginda, til að mynda með kyrkingum eða handalásum.

Sumir lesendur vita kannski ekki af því að Akureyri skartar jiu-jitsu félagi sem talsverður sómi er af, Atlantic Jiu Jitsu. Atlantic senti þónokkra keppendur suður á íslandsmótið í dag og snúa þeir keppendur heim með aragrúa af medalíum. Thomas Pálsson, yfirþjálfari hjá Atlantic, sagði í samtali við fréttaritara að mótið hafi farið hratt og vel fram og hæfileikastigið á mótinu almennt verið mjög hátt. Spurður um árangur nemenda sinna sagði hann að sem þjálfari sé fyrst og fremst gott að sjá bætingar þeirra frá því á síðasta móti. Medalíur og annað fínerí sé að sjálfsögðu skemmtilegt en í raun bara bónus.

Mikilvægt er að útskýra að líkt og tíðkast í flestum bardagaíþróttum keppa jiu-jitsu kappar í ýmsum flokkum. Á íslandsmótinu þetta árið var keppendum skippt í bæði þyngdarflokka og eftir beltum. Þeir sem hafa hærri belti hafa meiri reynslu og keppa því hver við annan, svipað og keppt er í fyrsta, öðrum og þriðja riðli í öðrum íþróttum. Þannig kepptu í dag þeir sem eru með hvítt belti í einum flokk, blátt belti í öðrum flokk og loks var þrem efstu beltunum, fjólubláum, brúnum og svörtum, skellt saman í einn efri belta flokk. Alls stigu fimm manns frá Atlantic á motturnar í dag og komust allir fimm á pall. Hér að neðan má lesa nánar um leiðir þeirra að pöllunum:

Bjarki Freyr Sveinsson – Brons í undir 88,4kg flokki hvítbeltinga. Bjarki byrjaði mótið sterkur og sigraði sinn fyrsta andstæðing á stigum á heldur sannfærandi hátt, en staðan var 9-0 í lok glímunnar. Því miður fór eitthvað úrskeiðis hjá okkar manni í undanúrslitum og náði andstæðingur hans uppgjafartaki, en Bjarki kom sterkur til baka og sigraði næstu tvær glímur án þess að fá á sig eitt einasta stig. Bjarki tryggði sér bronsið með tveim stigasigrum, einn 5-0 og annar 11-0. Á leiðinni sýndi hann af sér mikinn baráttuvilja og hörku á þessu fyrsta móti sínu, að sögn Thomas Pálssonar yfirþjálfara.

Hallgrímur Freyr Baldursson – Silfur í undir 100,5kg flokki blábeltinga. Hallgrímur var mjög nýlega gráðaður í blátt belti af Thomasi Palssyni, yfirþjálfara Atlantic. Hann keppti því í fyrsta sinn í þessum efri flokk í dag og sýndi fram á frábæra takta. Fyrstu viðureignina sigraði hann með svokallaðri ezekiel kyrkingu. Þrátt fyrir háfleyga nafnið er um að ræða mjög einfalt bragð, en til þess að klára anstæðing með því þarf að beita nákvæmri tímasetningu, sem Hallgrímur gerði. Hallgrímur gat því miður ekki gert slíkt hið sama gegn andstæðing sínum í úrslitaglímunni, sem hann tapaði á stigum.

Pavel Fiala – Silfur í undir 94,3kg flokki blábeltinga. Pavel kláraði fyrstu tvær glímurnar sínar með ótrúlegri snerpu. Í þeirri fyrstu náði hann uppgjafartaki, handalás sem kallast „armbar“ strax á annari mínútu. Önnur glíman hans Pavel entist ennþá styttra, einungis 13 sekúndur, svo snöggur var Pavel að skella á andstæðing sinn öðrum armbar dagsins, í þetta skiptið svokölluðum „fljúgandi armbar,“ sem þykir sérstaklega erfitt bragð að framkvæma. Því miður var mótstaðan of mikil fyrir Pavel í úrslitaglímunni, þar sem þaulreyndur keppnismaður sigraði hann með uppgjafartaki.

Amos Theodórsson – Gull í undir 64kg flokki hvítbeltinga. Þetta er einungis annað mótið sem Amos keppir á, enda er hann mjög nýr iðkandi, en hann sýnir strax af sér mjög flotta takta. Amos mætti einunigs einum andstæðingi í dag frá klúbbnum Sleipni í Reykjanesbæ, sem hann sigraði með yfirgnæfandi stigaforskoti, 14-0. Viðureignin var ekki alveg eins einhliða og stigin gefa til kynna, en Amos glímdi virkilega taktískt og sá til þess að andstæðingurinn kæmi aldrei stigum á hann, jafnvel ef hann lenti í misgóðum aðstæðum. Sínum eigin stigum halaði hann svo inn með því að tvisvar sinnum snúa glímunni rækilega í sinn hag og ná sterkri yfirburðarstöðu.

Breki Harðarson – Gull í undir 82,3kg flokki efri belta. Kaffið hefur áður fjallað um árangur Breka í glímunni, en Breki er með sterkari keppendum á landinu í brasilísku jiu-jitsu, þrátt fyrir að hafa æft það tiltölulega stutt. Þetta sýndi Breki enn og aftur fram á í dag, þar sem hneppti gullið í sínum flokki með sigri á tveimur reyndum andstæðingum, en báðar glímurnar enduðu í uppgjafartaki. Fyrstu glímuna kláraði hann með svokallaðri „diesel“ kyrkingu á þriðju mínútu. Áfram hélt hann svo í úrslitin og sigraði þá viðureign með „D’arce“ kyrkingu strax á fyrstu mínútu, sem hefur undanfarna mánuði staðið upp úr sem ákveðið sérsvið Breka, en svo virðist sem ekki sé til sú staða þar sem andstæðingar hans eru öruggir frá því bragði.

VG

UMMÆLI

Sambíó