Þau Harpa Lind Hjálmarsdóttir og Sigþór Gunnar Jónsson hafa slegið í gegn á samfélagsmiðlinum TikTok fyrir vikuleg stefnumót sín. Í umfjöllun á vef mbl.is segir að Harpa Lind og Sigþór hafi verið saman í tæplega níu ár og að í dag séu þau gift og eiga tvö börn, fjögurra og eins árs.
Harpa og Sigþór passa upp á að gera eitthvað saman, bara tvö, í hverri einustu viku. Þau hafa tekið upp á því að birta myndbönd á TikTok af vikulegum stefnumótakvöldum og hafa fengið mikla athygli fyrir.
„Við setjum tíu miða í krukku og merkjum hvor fimm með hugmyndum að stefnumótum næstu vikna. Á hverjum miðvikudegi er dreginn miði úr krukkunni og sá sem á vikuna sé um að undirbúa stefnumótið. Það getur oft verið mjög forvitnilegt þar sem Sigþór getur dregið miða með minni hugmynd og ég með hans,“ segir Harpa Lind í samtali við mbl.is.
Harpa Lind birti myndband þar sem þau útskýra hugmyndina fyrir fylgjendum sínum 30. ágúst síðastliðinn. Þar skrifa hjónin einnig niður hugmyndir sínar að skemmtilegum stefnumótum. Það myndband fékk yfir 25 þúsund áhorf. Nánar er rætt við Hörpu á vef mbl.is.
UMMÆLI