Klukkan tvö í dag fór fram fundur á Múlabergi sem blásið var til vegna fyrirætlaðrar sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. Fréttmaður Kaffisins var viðstaddur fundinn.
Líkt og kaffið hefur greint frá var tillagan um sameiningu kynnt nemendum og starfsfólki skólanna á fundi með skólameisturum beggja skóla og mennta- og barnamálaráðherra þann 5. september síðastliðinn og hefur fátt annað verið á vörum bæjarbúa síðan þá. Margir eru ósáttir við tillöguna og hafa bæði Kennarafélag MA og skólafélagið Huginn lýst yfir andstöðu sinni, ásamt fleiri aðilum.
Fundurinn sem fram fór á Múlabergi í dag var skipulagður af ýmsum einstaklingum sem eru andstæðir sameiningunni en það var Jan Eric Jessen, fyrrum nemandi MA, sem blés fyrst til fundar. Sögðu skipuleggjendur að tilgangur fundarins væri að mótmæla sameiningunni og ákveða næstu skref í því að stöðva hana frá því að ganga í gegn.
Snævar Örn Georgsson, fyrrum nemandi MA, sá um fundarstjórn en alls tóku tíu manns til máls í pontu. Einar Brynjólfsson, kennari í MA og fyrrum kennari í VMA tók fyrstur til máls og var hans ræða sú eina sem var fyrirfram ákveðin. Þegar orðið var síðan gefið laust reyndust fjölmargir vilja tjá sig, enda var fundurinn vel sóttur, en fundargestir voru rúmlega 60 talsins.
Þau sem töluðu í pontu voru einróma um það að vera andstæð sameiningunni, þrátt fyrir að koma úr ýmsum áttum. Meðal ræðufólks voru stúdentar frá MA, foreldrar fyrrum og núverandi MA-inga og núverandi og fyrrverandi kennarar beggja skóla. Heldur var þó meira um stúdenta og kennara við Menntaskólann en Verkmenntaskólann meðal ræðufólks.
Áhyggjur fundargesta voru fjölbreyttar, en lögðu flestir sérstaka áherslu á það að andstæða við sameiningu snerist alls ekki um upphafningu annars skólans yfir hinn. Sumu ræðufólki var annt um að vernda sérstæða menningu MA, aðrir höfðu áhyggjur af þjónustugetu sameinaðrar stofnunar gagnvart nemendum og enn aðrir sögðu tillöguna og skýrsluna sem hún byggir á illa unna frá upphafi til enda.
Rauði þráðurinn í vangaveltum fundargesta virtist þó vera sá að nú séu til tveir gjörólíkir skólar á Akureyri sem hvor sinnir sínu hlutverki af mikilli prýði og að sameinuð stofnun gæti ekki viðhaldið þeim gæðum og því úrvali sem nú er boðið upp á. Ýmsar hugmyndir voru um hvernig baráttunni skuli háttað og var til að mynda farið fram á að haldinn yrði sérstakur aukafundur bæjarstjórnar um sameininguna. Þegar þessi frétt er skrifuð hefur Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar óskað eftir slíkum fundi og hefur Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, bæjarfulltrúi VG á Akureyri, tekið undir þá beiðni. Þetta kemur fram á Facebook síðum þeirra. Þess ber einnig að geta að Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi L-listans, bæjarlista Akureyrar og forseti bæjarstjórnar var ein þeirra sem tók til máls á fundinum. Hún gaf þar ekki afstöðu sína á sameiningunni en lýsti því yfir að sjálfsagt sé að verða við því að halda slíkan fund.
Fundargestir og ræðufólk lögðu einnig áherslu á að beita þingmenn og þá sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins þrýstingi og krefja þá um afstöðu í þessu máli.
Streymt var frá fundinum í beinni útsendingu inn á Facebook hópinn “Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA” sem hefur fleiri en 2600 meðlimi þegar þessi frétt er skrifuð. Nálgast má upptöku af streyminu hér: https://www.facebook.com/magnusmani.sigurgeirsson.1/videos/845491833854099?idorvanity=846765066904027
UMMÆLI