NTC

Er sameining besta leiðin?

Er sameining besta leiðin?

Mikið hefur verið rætt um sameiningu MA og VMA undanfarna daga og ekki að undra. Um málið hefur ekki formlega verið rætt á vettvangi bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, en líklega eru skiptar skoðanir um málið innan hennar. Ég hef verið spurð út í mína skoðun á málinu og tel ég eðlilegt að bæjarfulltrúar tjái sig um jafn mikið hagsmunamál samfélagsins sem við þjónum og hér er rætt um.

Í stuttu máli hef ég gríðarlegar efasemdir um að tilgangur umræddrar sameiningar sé í raun „efling framhaldsskóla“ heldur snúist fyrst og fremst um sparnað. Sá sparnaður muni fyrst og fremst birtast í fækkun starfsfólks, kennara, náms- og starfsráðgjafa og sálfræðinga, ef áformin ná fram að ganga yfirleitt. Líkt og skólameistari MA hefur ítrekað bent á þá er alþjóðleg reynsla af sameiningu menntastofnana af rekstrarstjórnarmiðum einum saman sýni að það séu 90% líkur á að þær mistakist. Þá hef ég séð settar fram miklar efasemdir um þá tölfræði sem snýr að fækkun nemenda, sem formaður Félags framhaldsskolakennara hefur m.a. bent á (sjá https://www.ki.is/media/nxdiepmu/ályktun-vegna-áforma-um-sameiningar-framhaldsskóla.pdf  og http://skolathraedir.is/2023/07/03/starfsnam-eda-boknam/ )

Þá hef ég ekki séð hvort og þá hvernig námið sjálft ætti að verða betri í þessum skólum með sameiningu, eða hvort að átt sé við að því sé nú með einhverjum hætti ábótavant.

VMA og MA eru eftir því sem ég best veit öflugir skólar og sem betur fer ólíkir. Ég tel ekki að einn valmöguleiki, einn ríkisskóli, verði betri fyrir nemendur. Þvert á móti tel ég mikilvægt að „hin borgin“ bjóði ungmennum upp á ólíka valkosti. Vissulega eru aðrir valkostir um framhaldsskóla á svæðinu en þeir eru þó í um klukkustunda akstursfjarlægð frá Akureyri og fjarnám töluvert ólíkt í eðli sínu. Þeir skólar skipta þó líka máli og henta sumum, sem er jákvætt.

Allt þetta breytir því þó ekki að áskoranirnar virðast vera all nokkrar og nauðsynlegt er að fara vel með almannafé. Ætlun mín er alls ekki gera lítið úr vinnu starfshóps vegna málsins né efast ég um heilindi þeirra, hins vegar hefði ég gjarnan vilja sjá að uppleggið hefði ekki aðeins verið tvær sviðsmyndir, sameining eða ekki sameining, heldur að einnig hefði verið teiknuð upp önnur sviðsmynd t.d. um hvort og þá hvernig hægt væri að ná ætluðum árangri t.d. með aukinni samvinnu og samstarfi skólanna.

Miklu máli virðist skipta fyrir umræðuna að fram komi hvort að sá sem tjáir sig um málið hafi verið í öðrum hvorum skólanum eða eigi eða hafi átt börn í öðrum hvorum skólanum. Því ber að taka fram að ég og eiginmaður minn erum stúdent frá VMA og höfum við átt börn í MA og MTR. Hins vegar þykist ég nokkuð sannfærð um að erfitt sé fyrir mig að bera þann VMA sem ég útskrifaðist úr árið 1997 saman við þann VMA er í boði nú, enda hafi væntanlega báðir skólarnir breyst töluvert á undanförnum árum. Kannski ekki síst þess vegna tel ég það mikil mistök að samráð við nemendur og kennara hafi ekki verið meira hingað til en raun ber vitni.

Hilda Jana Gísladóttir

Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

VG

UMMÆLI