Nemendur í Menntaskólanum á Akureyri eru orðnir þreyttir á stöðugri rútuumferð á bílastæðum skólans í upphafi skólaársins samkvæmt Hrímfaxa, sjálfstætt starfandi miðils sem fjallar um það sem brennur á hugum menntskælinga á Akureyri.
„Rúturnar hafa fest bíla í stæðum sínum, stofnað gangandi vegfarendum í hættu og í þó nokkur skipti komið mjög nálægt því að valda árekstri. Er þessi umferð ný á nálinni en hefur þetta ekki verið svona síðastliðin ár, samkvæmt heimildum Hrímfaxa var lítið hægt að gera í málunum þar sem að Akureyrarbær hefur framlengt sumarsamninga við ferðaskrifstofur og því mun umferðin standa út septembermánuð,“ segir á vef Hrímfaxa.
„Þetta ástand á bílaplaninu er búið að vera frá því skólinn var settur í síðasta mánuði. Rúturnar hafa verið að leggja á bílastæðunum sem eru bæði fyrir Menntaskólann og heimavistina. Þeim var lagt fremst á bílastæðin til að komast með túrista í Lystigarðinn,“ segir Krista Sól Guðjónsdóttir, forseti nemendafélags MA, í samtali við mbl.is.
Tveir nemendur skólans sem voru orðnir þreyttir á rútunum ákvaðu að standa fyrir því sem þeir kölluðu borgaralega uppreisn og lögðu bílum sínum sitthvoru megin við SBA rútu sem stóð í 6 stæðum á bílastæðinu. Bílunum var lagt löglega í stæðin.
„Lagðist þá mikill æsingur á mannskapinn en á staðnum voru fleiri rútur, leiðsögumenn á vegum SBA og þó nokkrir menntskælingar. Rútubílstjórar og leiðsögumenn jusu óyrðum yfir menntskælingana um hverskonar kynslóð væri að taka við landinu. Í öllum æsingnum stóð bílstjóri rútunar upp og hleypti úr tveimur dekkjum á bíl mennskælingsins sem var lagt fyrir framan rútuna, sem getur valdið gríðarlegu tjóni á dekkjum bíls. Hrópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn, sem er mjög óvenjulegt en aldei á að keyra á loftlausu dekki. Fór bílstjórinn þá aftur upp í rútuna og keyrði auðveldlega af stað án þess að neinn bíll hafi verið færður,“ segir í umfjöllun Hrímfaxa um viðburðinn.
Hrímfaxi hefur haft samband við SBA en ekki fengið nein svör. Samkvæmt umfjöllun Hrímfaxa hefur rútum verið lagt aftast á bílastæðunum síðan atvikið átti sér stað.
UMMÆLI