Fjölbreytt dagskrá í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar

Fjölbreytt dagskrá í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar

Forsetahjón Íslands komu í opinbera heimsókn til Akureyrar yfir helgina heimsóknin stóð í tvo daga. Forsetahjónin hófu opinbera heimsókn sína til Akureyrar á föstudaginn með fundi með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra, bæjarstjórn og sviðsstjórum bæjarins í Ráðhúsinu. Í framhaldinu var gengið um húsið og heilsað upp á starfsfólk en því næst haldið í Listagil þar sem fáni bæjarhátíðarinnar Akureyrarvöku var dreginn að húni með aðstoð leikskólabarna.

Þá heimsóttu hjónin Naustaskóla, hlustuðu þar á kynningar nemenda um stefnu skólans og ræddu svo við stjórnendur, kennara og nemendur í kennslustofum. Í Verkmenntaskólanum fræddust forsetahjónin meðal annars um vélstjórnarnám og listgreinabraut auk þess að ræða við nemendur sem nýlega eru fluttir til landsins.

Í hádeginu heimsóttu þau hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð og ræddu þar við starfsfólk og dvalargesti og þáðu hádegisverð í matsal. Þá komu þau við á Iðnaðarsafninu en þar má sjá hve sterk Akureyri var á sviði margs konar iðnaðar á liðinni öld.

Næst var haldið að Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar, og kynntu forsetahjónin sér þar starfsemina sem felst m.a. í stuðningi við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá heimóttu þau leikskólann Klappir og vígðu hann. Leikskólinn er svo að segja nýr en dregist hafði að vígja hann vegna kóvíð farsóttarinnar. Þá lá leiðin í Slippinn sem forsetahjón skoðuðu og þar næst hlýddu þau á kynningu á starfsemi sjö fyrirtækja í húsakynnum Slippsins.

Um kvöldið þáðu forsetahjónin kvöldverð í Laxdalshúsi í boði bæjarstjórnar Akureyrar. Svo fóru þau í Lystigarðinn þar sem forseti flutti ávarp og setti Akureyrarvöku formlega og færði bæjarfélaginu mynd að gjöf. Svo fylgdust hjónin með skemmtiatriðum þar í garðinum, í Hofi og víðar í bænum.

Forseti hóf síðari dag heimsóknarinnar á því að taka þátt í morgunskokki með hópi Akureyringa og aðkomumanna en svo fóru forsetahjón í sögugöngu um Innbæinn og fræddust um þennan gamla bæjarhluta. Þar vígðu þau hvort sinn „söguljósastaur“ þar sem fræðast má um sögu hússins sem staurinn stendur við.

Í heimsókn á Sjúkrahúsið á Akureyri ræddu forsetahjónin við stjórnendur, starfsmenn og sjúklinga og heimsóttu rannsnsóknadeild, blóðskilun, skurðlækningadeild og eldhús. Í hádeginu var haldið í Skautahöllina og heilsað upp á landsliðshóp og þjálfara kvennalandsliðsins í íshokkí. Þá lá leiðin að Glerárskóla þar sem þau komu í Garðinn hans Gústa og hittu þar körfuboltamenn á götukörfuboltamóti.

Að því loknu héldu þau á Amtsbókasafnið og ræddu þar við „mannlegar bækur“, fólk sem þar er „til útláns“ og getur svarað spurningum gesta um ákveðið málefni sem þau þekkja vel til. Þarna ræddu hjónin líka við Sesselíu Ólafsdóttur bæjarlistamenn og amtsbókavörðinn. Þá héldu forsetahjónin á tónleika Sirkústóna í Hofi, heimsóttu þrjú lítil gallerí í Listagili og skoðuðu að síðustu fimm sýningar í Listasafninu þar sem forseti flutti opnunarávarp.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó