Fundargerð frá fundi stjórnar Fimleikafélags Akureyrar þann 8. Ágúst síðastliðinn greinir frá því að ítarleg endurskoðun á fjármálum félagsins í kjölfar vorsýningar leiddi í ljós afar erfiða fjárhagslega stöðu.
Skuldir FIMAK munu standa í 20 milljónum króna við lok sumars ef ekkert verður að gert og hefur félagið gengið að luktum dyrum alls staðar þar sem sótt hefur verið eftir styrkjum, þar með talið hjá Íþróttabandalagi Akureyrar og Fimleikasambandi Íslands. Félagið lýsti því sem svo á fundi með Akureyrarbæ að eins og staðan væri þyrfti það að lýsa sig gjaldþrota.
Akureyrarbær lagði félaginu hjálparhönd við að greiða laun starfsfólks fyrir sumarmánuðina, en aðstoðin var veitt með því skilyrði að unnin yrði kostnaðargreining og tilraun gerð til að sameinast öðru félagi. Samningarviðræður þess efnis við bæði Þór og KA eru á byrjunarstigi.
Fjórum fastráðnum starfsmönnum félagsins hefur verið sagt upp, en stjórn félagsins hefur sagt að stefnt sé á að ráða þá aftur. Starf félagsins er hafið aftur eftir sumarfrí en Sonja Dagsdóttir, formaður stjórnar FIMAK sér ekki fyrir sér að það verði lagt niður á næstunni: „Það verða alltaf fimleikar á Akureyri, það er bara hver ætlar að koma að því af þessum félögum og hvernig Akureyrarbær ætlar að aðstoða við það,“ segir Sonja í samtali við Vísi.
UMMÆLI