Framsókn

Símenntun HA og Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð HA hljóta 60 milljóna króna styrk

Símenntun HA og Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð HA hljóta 60 milljóna króna styrk

Símenntun Háskólans á Akureyri og Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri (KHA) hlutu á dögunum styrk frá Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál að upphæð 400.000 evra. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

Þar segir að titill verkefnisins sé Reflecting Economics and Climate Change in Teaching (REACCT) og að verkefnið snúi að vitundarvakningu gagnvart sjálfbærni í kennslu með áherslu á viðskipta- og hagfræðigreinar. KHA og Símenntun leiða REACCT verkefnið sem er til þriggja ára og samstarfsaðilar eru háskólar í Póllandi, Tékklandi, Slóveníu, Ítalíu og Serbíu.

„Símenntun og KHA hafa í dag skapað sér sérfræðiþekkingu í að setja upp umgjörð fyrir fjarnám og stafræna hæfni enda dugleg að koma að verkefnum sem snúa að framþróun í þeim efnum. Fyrir eru þau í Evrópuverkefninu DANTE sem snýr að því að styðja við stafræna hæfni háskólakennara og starfsfólks en því verkefni lýkur sumarið 2023. Einnig eru þau þátttakendur í BlendVet í samstarfi við Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem útbúin er umgjörð um fjarnám í verknámsskólum og lýkur því verkefni árið 2024. Að auki eru þau í verkefni sem ber heitið Green og snýr að því að koma umhverfisvænum lausnum og stafrænni hæfni inn í kennslu og daglegt líf,“ segir á vef Háskólans.

„Símenntun hefur stóraukið þekkingu sína á fjarnámslausnum og myndað mikilvægt tengslanet á meginlandi Evrópu. Það er einnig mikilvægt fyrir Símenntun að gera sig gildandi og miðla af reynslu sinni í fjarnámslausnum til annarra stofnanna,“ segir Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri, aðspurður um afraksturinn af þátttöku í ofangreindum verkefnum.

Þá segir Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar Háskólans á Akureyri, það mikilvægt fyrir háskólann að fylgjast með og taka þátt í því sem er að gerast alþjóðlega þegar kemur að fjarnámi og stafrænni hæfni. „Sú reynsla sem kemur úr þessum verkefnum styrkir starf Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar HA sem nýtist Háskólanum í að þróa sitt sveigjanlega nám áfram,” segir Auðbjörg að lokum.

Sambíó

UMMÆLI