Hljómsveitin ÞAU verður á tónleikaferðlagi um Norðurland í júlí og mun leika á sjö tónleikum víðsvegar um svæðið. Þetta er gert í tilefni af því að platan ÞAU taka Norðurland sem mun koma út síðar á þessu ári.
Hljómsveitina skipa Rakel Björk Björnsdóttir sem hefur getið sér gott orð leik- og söngkona meðal annars í Borgarleikhúsinu þar sem hún lék í sýningunum 9 líf, Matthildur og Room 4.1, og Garðar Borgþórsson gítar- og slagverksleikari sem leikið hefur með hljómsveitum eins og Ourlives og different Turns auk þess að hafa samið tónlist fyrir fjölda leiksýninga.
Tónleikaferðalagið verður sem hér segir:
– 8. júlí – LYST, Lystigarðinum á Akureyri
– 9. júlí – Húsavíkurkirkja
– 12. júlí – Í skúr Stebba Jak á Mývatni
– 13. júlí – Græni hatturinn á Akureyri
– 15. júlí – Grána á Sauðárkróki
– 16. júlí – Kaffi Rauðka á Siglufirði
– 20. júlí – Gísli, Eiríkur, Helgi á Dalvík
ÞAU taka Norðurland
Öll lögin eiga það sameiginlegt að vera samin við texta norðlenskra skálda. Skáldin sem eiga kvæði á plötunni eru Ólöf frá Hlöðum, Sigurunn Konráðsdóttir, Hulda, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Sverrir Pálsson, Kristján Jónsson, fjallaskáld, Anna Ágústsdóttir og Ása Guðlaug Stefánsdóttir.
Nýlega kom út lagið Kenndu mér við kvæði Ólafar frá Hlöðum sem var fjórða lagið sem kemur út af þessari plötu. Áður hafa lögin Til kvæðagyðjunnar, Vorvísur og Abba-labba-lá komið út. Þetta er önnur plata sveitarinnar en sú fyrsta, ÞAU taka Vestfirði, kom út í fyrra. Þá var unnið með svipað upplegg, lög sem hljómsveitin samdi við texta vestfirskra skálda.
Lögin af plötunum má heyra á Spotify síðu sveitarinnar. https://open.spotify.com/artist/6Ct50lb1SYNbNs1JEPDGcJ?si=56bFHJj1Qg-HyGmC1GCxKw
Þú velur miðaverðið
Sú nýjung verður viðhöfð á tónleikum hljómsveitarinnar í sumar að tónleikagestum býðst að velja sjálfir hvað þeir greiða fyrir tónleikamiðann. Þetta verður hægt að gera á tónleikastað sem og þegar miðar eru keyptir á tix.is.
UMMÆLI