NTC

Hart tekið á þeim brotum sem kunna að koma upp á Bíladögum

Hart tekið á þeim brotum sem kunna að koma upp á Bíladögum

Fulltrúar frá Akureyrarbæ, Aflinu, Bílaklúbbi Akureyrar, lögreglu, slökkviliði og tjaldsvæðunum á Hömrum og Hrafnagili funduðu nýverið um Bíladaga 2023 sem hefjast miðvikudaginn 14. júní og lýkur formlega laugardaginn 17. júní með bílasýningu og spólkeppni (burnout). Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Þar segir að á fyrri árum hafi orðið vart við glannaakstur á Bíladögum og að slíkur akstur sé ólöglegur og samræmist engan veginn siðareglum Bíladaga. Höfuðáhersla verður lögð á að allir virði siðareglur Bíladaga sem fyrr og hart verður tekið á þeim brotum sem kunna að koma upp. „Og gildir þá einu hvort brotin eiga sér stað utan eða innan aksturssvæðis BA,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, verða sýnileg á stærstu viðburðum Bíladaga og lögreglan fylgist vel með því að allt fari vel fram. Lögreglumenn á vakt verða á bæði merktum og ómerktum bílum. Starfsmenn umhverfismiðstöðvar hafa nú þegar komið upp hraðahindrunum víða um bæinn til að koma í veg fyrir spól og háskalegan hraðakstur sem er að sjálfsögðu bannaður.

Þjónusta verður ólík eftir tjaldsvæðum þessa daga. Fjölskyldutjaldsvæðið við Hrafnagil verður lokað fyrir 30 ára og yngri frá þriðjudeginum 13. júní til laugardagsins 17. júní. Þá verður hliðvarsla og ströng gæsla til að stjórna aðgengi að svæðinu. Tjaldsvæði Bílaklúbbsins verður opnað þriðjudaginn 13. júní kl. 19 og er opið til sunnudagsins 18. júní. Svæðið er opið öllum gestum Bíladaga en ekki aðeins þeim sem keypt hafa passa á alla viðburði Bíladaga sem er breyting frá fyrra fyrirkomulagi. Engin breyting er á þjónustu fjölskyldutjaldsvæðisins á Hömrum sem er opið alla daga.

Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdarstjóri tjaldsvæðisins að Hömrum, segir að það sé fyrst og fremst ætlað fjölskyldum og gerðar ríkar kröfur til tjaldgesta um að næði sé virt á svæðinu svo bæði börn og fullorðnir geti notið dvalarinnar.

„Eins og alla aðra daga er 18 ára aldurstakmark inn á svæðið og yngri einstaklingum sem ekki verða í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum verður vísað frá. Það dugar ekki að vera í fylgd með einhverjum sem er eldri en átján ára. Þessa helgi verður rekið annað tjaldsvæði í bænum þar sem þeir sem ekki falla undir fjölskylduhópinn sem dvelur á Hömrum geta sett niður tjöld sín. Það er hið besta mál og þar gilda heldur rýmri vökureglur en hjá okkur og það er sérstaklega rekið af Bíladögum og ætlað þeirra gestum,“ segir Ásgeir Hreiðarsson á vef bæjarins.

Dagskrá Bíladaga er eftirfarandi:*

14. júní – Auto X kl. 16
14. júní – Drift sýning kl. 18
15. júní – Rallycross kl. 13
15. júní – Hávaðakeppni, græjukeppni og bílalimbó frá kl. 20
16. júní – Götuspyrna kl. 15
17. júní – Bílasýning kl. 10-18
17. júní – Burnout kl. 20-23

*Birt með fyrirvara um breytingar

Nánari upplýsingar um Bíladaga er að finna HÉR

Siðareglur Bíladaga:

  • Við göngum (keyrum) vel um bæinn okkar, jafnt gestir sem heimamenn.
  • Virðum hámarkshraða í íbúðarhverfum sem og á vegum úti.
  • Við spólum einungis á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar.
  • Gestir Bíladaga eru jákvæðir og þar af leiðandi þrælskemmtilegir.
  • Við berum virðingu fyrir náunganum og tökum höndum saman um að gera Bíladaga frábæra.
  • Gestir Bíladaga ganga snyrtilega um umhverfi sitt.
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó