Töluverðar framkvæmdir standa nú yfir á Kaupvangstorgi á gatnamótum Listagils (Kaupvangsstrætis) og Hafnarstrætis. Af þeim sökum má búast við takmörkunum á umferð ökutækja um svæðið næstu vikurnar og verður til að mynda einstefna upp eða niður Gilið eftir því sem verkinu vindur fram. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar þar sem segir að þessar framkvæmdir séu löngu tímabærar en beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þær kunna að valda.
„Lokið er við að helluleggja götuna við suðurhluta torgsins og gekk sú framkvæmd vonum framar. Nú er sérstakt fúguefni á milli hellusteina á því svæði að harðna almennilega en líklega verður óhætt að hleypa bílaumferð suður Hafnarstrætið frá gatnamótunum eftir helgi. Næsti áfangi er að lagfæra gönguleiðir yfir Listagilið og einnig gangstéttar og gönguleiðir að norðanverðu sem sjá má innan rauðu reitanna á myndinni að neðan,“ segir á vef bæjarins.
UMMÆLI