Framsókn

Treystu trefjunum

Treystu trefjunum

Það er forvitnilegt að fylgjast með tískustraumum þegar kemur að mataræði. Einn daginn eru kolvetnin djöfullinn. Næsta dag skiptir öllu máli að fasta til hádegis. Og svo þriðja daginn þarf að leggjast í útreikninga yfir hlutföll kolvetna, fitu og próteina. Já, það breytist ansi hratt hvernig við eigum að borða. Heilbrigt samband við mat er eitthvað sem fáir ná að tileinka sér í nútímasamfélagi. 

Erfitt er að vita hverjum maður eigi að treysta þegar kemur að fæðuvali. En ef það er einhver sem maður ætti að veðja á, þá er það landlæknir og almennar ráðleggingar hans. Þær einkennast af fjölbreyttu fæði í hæfilegu magni með áherslu á það að nærast og njóta. Mikilvægi er lagt á gæði fæðunnar og mataræðið í heild sinni frekar en einn og einn dag. Enda er það heildarmyndin sem skiptir öllu máli þegar öllu er á botninn hvolft. 

Almennu ráðleggingarnar fylgja ekki nýjustu tískustraumum þegar kemur að fæðuvali. Enda eru kolvetni hluti af þeim. Kjöt og dýraafurðir sömuleiðis. Engir útreikningar. Engir bannlistar. Heilræði landlæknis segja okkur að borða sitt lítið af hvoru, hlusta á líkamann og velja gæðaríkt bensín fyrir kroppinn. Þessi mikla áhersla á gæði er sérstaklega einkennandi í heilræðunum. Og út frá því langar mig aðeins að beina sjónum að trefjum. 

Trefjar eru ómeltanleg kolvetni sem nýtast hvorki sem næring né orkuefni. Þær gegna hins vegar þýðingarmiklu hlutverki við meltingarferlið og draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum. Almennt finnast trefjar í grófu kornmeti, ávöxtum, grænmeti, baunum og linsum svo dæmi séu tekin. Augljóslega er því jurtafæði einkum trefjaríkt. Það sem er svo magnað við trefjarnar er að þær draga úr sveiflum á blóðsykri, auka seddutilfinningu og stuðla þannig að þyngdarstjórnun. Þær næra þarmaflóruna og minnka líkur á til dæmis hægðatregðu, ristilkrabbameini og sykursýki. Trefjar taka pláss í maganum og ef við erum dugleg að tyggja trefjar, þá er ekki eins mikið pláss fyrir næringarsnauða fæðu.  

Já, við megum sko treysta trefjunum og hætta að sækjast í lágkolvetna, kolvetnaskert eða ketó fæði. Af því að litlar líkur eru á því að þú fáir nægar trefjar á slíku mataræði. Kolvetni og kolvetni er sko ekki endilega það sama en ef gæða- og trefjarík kolvetni eru stór hluti af þínu mataræði, þá ert þú í góðum málum. 

*Fiber is your friend*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó