NTC

Þórsararnir Tristan og Snæbjörn valdir í U18 landslið í píluTristan og Snæbjörn kasta báðir fyrir píludeild Þórs. Ljósmynd: Þór

Þórsararnir Tristan og Snæbjörn valdir í U18 landslið í pílu

Tveir ungir Þórsarar, Tristan Ylur Guðjónsson, 17 ára og Snæbjörn Þorbjörnsson, 16 ára, hafa verið valdir í U18 landsliðið í pílukasti. Þeir munu keppa fyrir hönd Íslands á Evrópumóti ungmenna sem fram fer í Vínarborg 5. – 8. Júlí næstkomandi. Voru þeir valdir ásamt fjórum öðrum ungmennum í þetta verkefni af U18 ára landsliðsþjálfurum Íslands. Fréttaritari Kaffisins náði tali af drengjunum í dag.
Snjæbjörn hefur æft píluna í þrjú ár og er mjög efnilegur. Hann segist fyrst hafa prófað að kasta með frænda sínum og mánuði seinna verið kominn með sitt eigið spjald. Snæbjörn setur markmiðið hátt: “Það er bara að verða bestur … Verða Íslandsmeistari og komast á mót úti.”

Hann fékk fréttirnar í gærmorgun um að hafa komist að í landsliðinu og segir tilfinninguna hafa verið góða: “Hún var bara mjög góð, ég var búinn að bíða lengi eftir þessu.”

Tristan Ylur fór að dunda við pílukast í Covid. Hann keypti sér spjald og “einhverjar drasl pílur” og fór að fylgjast með íþróttinni. Smám saman varð áhuginn meiri og síðasta sumar fór hann að stunda píluna af meiri alvöru. 

Hann sér pílukastið samt sem áður enn sem áhugamál: “Þegar menn eru að tala um að ég sé að æfa pílu, ég er ekki sammála því, þetta er bara áhugamál og mér finnst bara gaman að stunda það.”

Þetta áhugamál hefur þó aldeilis undið meira upp á sig en Tristan átti von á: “[Að komast að í landsliðinu] er eðlilega bara mjög gaman sko … þegar maður byrjaði að keppa á þessum mótum og svona þá var þetta ekkert sem maður var að plana eða búast við að einn daginn myndi maður vera þarna”

Tristan, sem stundar bæði pílukast og handbolta af krafti, hefur ekki skilgreind framtíðarmarkmið í pílunni, fyrir utan það að sjálfsögðu að fara til Austurríkis í sumar og vinna þetta mót fyrir hönd Íslands.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó