Framsókn

Rannsókn á algengi svefnvandamála barna – Gagnasöfnun gengið vonum framar

Rannsókn á algengi svefnvandamála barna – Gagnasöfnun gengið vonum framar

Nú er runnin upp síðasta vikan sem Sjúkrahúsið á Akureyri safnar börnum til að taka þátt í stærstu svefnrannsókn sem gerð hefur verið á Íslandi á svefnvenjum ungra barna.

„Algengi svefnvandamála barna“ er viðamikil rannsókn sem Sjúkrahúsið á Akureyri leiðir. Gagnasöfnun lýkur næsta þriðjudag en nú eru 363 börn skráð í rannsóknina. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að kæfisvefn meðal barna sé algengara vandamál en fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna en alls hafa 75 þátttakendur með meðal- eða alvarlegan kæfisvefn mætt í skoðun og eftirfylgni hjá háls-, nef- og eyrnalækni, barnalækni og tannréttingasérfræðingi á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk).

Í þessari viku fara síðustu kynningarfundirnir fram. Skráning í rannsóknina og frekari upplýsingar fást með því að senda línu á svefn@sak.is. Öll börn fædd 2014-2018 sem búa á Akureyri og í nærsveitum geta tekið þátt.

Nýlegar rannsóknir sýna að svefnvandamálum barna hefur ekki verið gerð nógu góð skil innan heilbrigðiskerfisins en markmið rannsóknarinnar er að kortleggja algengi svefntruflana og í framhaldi skoða betur undirliggjandi ástæður og gagnsemi meðferðar.  Ógreindur kæfisvefn getur haft neikvæð áhrif á bæði hegðun og þroska barna sem og aukið líkur á offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni.

Mikill ávinningur fyrir börn og foreldra þeirra

Þátttaka barnsins felst í að sofa með einfalt svefnmælitæki fimm nætur í röð. Forráðamenn barnsins svara spurningalista varðandi heilsufar, fæðuval og svefn barnsins og hlaða tækið að morgni. Ávinningur af þátttöku í rannsókninni er að forráðamenn fá niðurstöður svefnmælinga síns barns og ef líkur eru á að það hafi kæfisvefn, býðst þeim ráðgjöf og eftirfylgni.

Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í lýðheilsuvísindum, hefur haldið utan um kynningarfundina. „Það er ákaflega skemmtilegt að fá að vera hluti af þessu stóra verkefni, börnin hafa einfaldlega rúllað þessu upp. Þau fá kynningu og tækifæri til spyrja okkur spurninga. Almennt hafa þau verið mjög jákvæð fyrir verkefninu og að sögn foreldranna hafa mörg börn verið óvenju spennt að fara að sofa og setja upp „draumahringinn“. Gagnasöfnunin hefur því gengið vonum framar,“ segir hún. Hún segir að markmiðið um að fá 400 börn í rannsóknina sé í augsýn og að „það væri frábært að fá nokkra tugi til víðbótar á endasprettinum.“

Svefnmælingatækið er frá fyrirtækinu SleepImage og er afrakstur 15 ára þróunarstarfs fyrirtækisins og Harvard háskóla. Mælitækið er sett á fingur barnsins líkt og hringur, er þægilegt og algerlega hættulaust í notkun en gefur mikilvægar upplýsingar. Búið er að birta yfir 100 vísindagreinar um þá tækni sem tækið byggir á en það kom á markað árið 2020.

Mikilvægt verkefni fyrir SAk

Laufey Hrólfsdóttir, forstöðumaður deildar mennta og vísinda á SAk og lektor við Heilbrigðisvísindastofnun HA, segir að svona verkefni séu ákaflega mikilvæg fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri, sem vinnur að því að verða háskólasjúkrahús. Hún segir að forsendur góðrar heilbrigðisþjónustu séu rannsóknir og þróunarvinna ásamt möguleikum til að nýta sér nýja þekkingu. Öflugt vísindastarf við SAk efli gæði þjónustunnar, mannauð og geri sjúkrahúsið að aðlaðandi vinnustað.

„Eitt af markmiðum okkar var að efla samstarf við fyrirtæki á heilbrigðissviði og með þessari vinnu sjáum við fram á að birta um 5-10 vísindagreinar á þessu sviði og kynna niðurstöðurnar hér heima og erlendis. Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem hjálpa okkur að bæta greiningu og meðferð við kæfisvefni“.

Umsjónarmenn verkefnisins eru þau Hannes Petersen, háls-, nef- og eyrnalæknir, Gróa Björk Jóhannesdóttir, forstöðulæknir barnalækninga og Laufey Hrólfsdóttir, forstöðumaður deildar mennta- og vísinda, öll á SAk. Samstarfsaðilar eru Sólveig Dóra Magnúsdóttir, eigandi SleepImage og Gísli Einar Árnason tannréttingasérfræðingur. Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir læknanemi, Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í lýðheilsuvísindum og Magnús Ingi Birkisson sérnámsgrunnslæknir vinna að gagnasöfnun og drögum að vísindagreinum.

Verkefnið hefur fengið styrki frá vísindasjóðum SAk, HA og læknaráðs SAk, Nýsköpunarsjóði námsmanna og Lýðheilsusjóði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó