NTC

Heilsugæslan á Akureyri flytur alfarið úr Hafnarstræti

Heilsugæslan á Akureyri flytur alfarið úr Hafnarstræti

Tekin hefur verið ákvörðun um að flytja stærsta hlutann af starfsemi HSN á Akureyri í Sunnuhlíð um áramót. Heimahjúkrun verður áfram í núverandi húsnæði, sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi flytja í Hvannavelli 14 og unnið er að því að finna húsnæði fyrir þann hluta yfirstjórnar sem er á Akureyri. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HSN.

„Lengi hefur verið vitað að húsnæði heilsugæslunnar í Hafnarstræti 99 henti ekki undir þá starfsemi sem þar fer fram. Um þverbak keyrði í vetur með loftgæði þegar skiptust á hlákur og mikið frost. Verkfræðistofan EFLA var fengin til að taka húsnæðið út og mæla mögulega myglu. Skemmst er frá því að segja að mygla fannst í nokkrum rýmum. Brugðið var á það ráð að leigja húsnæði á Hvannavöllum 14 þar sem N4 voru til húsa undir sálfélagslega þjónustu og geðheilsuteymi. Með því er hægt að flytja starfsmenn úr þeim rýmum sem eru verst, í húsnæði það sem var nýtt undir sálfélagslegu þjónustuna. Það húsnæði hýsti áður Læknastofur Akureyrar og hentar því undir klíníska starfsemi,“ segir í tilkynningunni.

Markmiðið var að kljúfa starfsemina upp í tvær einingar þegar heilsugæslustöðin í Sunnuhlíð yrði tilbúin í desember 2023. Greining á kostnaði við að gera við Hafnarstræti 99 leiddi hinsvegar í ljós að kostnaður við endurbætur yrði mjög mikill.

„Ekkert vit er í því að leggja í slíkan kostnað þegar ætlunin er að flytja úr húsnæðinu í lok ársins 2025 þegar heilsugæslustöð við Þórunnarstræti verður tilbúin. Eðlilegt er að þegar það húsnæði er lagfært liggi fyrir framtíðar notkun á húsnæðinu,“ segir í tilkynningu.

Nú hefur því verið tekin ákvörðun um að fresta því að kljúfa upp starfsemina og flytja stærsta hlutann af klínískri starfsemi í Sunnuhlíð um áramót. Þannig verður öll læknisþjónusta, hjúkrunarmóttaka, mæðravernd, ungbarnavernd og önnur þjónusta í Sunnuhlíð.

Heimahjúkrun verður áfram í húsnæði Hvítasunnukirkjunnar, sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi á Hvannavöllum 14, 3. hæð. Stefnt er á að sá hluti yfirstjórnar sem er á Akureyri flytji einnig þó enn sé óljóst hvert. Með þessum ráðstöfunum telur HSN að hagsmunum starfsfólks og þjónustuþega heilsugæslunnar á Akureyri sé best borgið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó