NTC

Oddeyrarskóli og Menntaskólinn á Akureyri fengu styrk úr Sprotasjóði

Oddeyrarskóli og Menntaskólinn á Akureyri fengu styrk úr Sprotasjóði

Oddeyrarskóli á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri fengu í vikunni styrk úr Sprotasjóði leik-, grunn-, og framhaldsskóla. Þá fékk fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar einnig styrk úr sjóðnum.

Sprotasjóður leik- grunn- og framhaldsskóla úthlutaði 56,8 m.kr. til 25 skólaþróunar-verkefna fyrir skólaárið 2023–2024. Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, og formaður stjórnar sjóðsins, Bragi Þór Svavarsson, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu mánudaginn 15. maí.

Menntaskólinn á Akureyri hlaut styrk að upphæð 3.300.00 kr. fyrir verkefnið Geðrækt í MA – Bjargráðin 5. Verkefnisstjóri er Kristín Elva Viðarsdóttir skólasálfræðingur.  Oddeyrarskóli fékk styrk að upphæð 3.480.000 kr. fyrir verkefnið Bætt líðan – aukin fræðsla og þá fékk fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar styrk að upphæð 2.600.000 kr. fyrir verkefnið Bætt verklag í baráttu við skólaforðun.

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Umsýsla er hjá Rannís. Áherslusvið sjóðsins voru að þessu sinni

  • farsæld barna og ungmenna með áherslu á geðrækt, geðtengsl, geðheilbrigði,
  • sköpun og hönnun,
  • stafræn borgaravitund, upplýsinga- og miðlalæsi.

Samtals bárust sjóðnum 76 umsóknir að undangenginni auglýsingu. Samanlagðar fjárbeiðnir námu alls 259,2 m.kr.

Sambíó

UMMÆLI