A! Gjörningahátíð

Bæjarstjórnarfundur unga fólksins

Bæjarstjórnarfundur unga fólksins

Árlegur fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn Akureyrar, sem kallaður hefur verið bæjarstjórnarfundur unga fólksins, var haldinn í Ráðhúsinu þriðjudaginn 9. maí. Fjallað er um fundinn á vef Akureyrarbæjar.

Ýmislegt var á dagskrá fundarins en málefnin voru unnin úr helstu niðurstöðum frá Stórþingi ungmenna sem haldið var í Hofi fyrr á árinu. Má til dæmis nefna umræður um fræðslu um fjölbreytileika mannlífs, samstarf grunn- og framhaldsskóla til að draga úr álagi á nemendur, geðheilbrigðismál og aðgengi að þjónustu fyrir börn og ungmenni, umhverfismál og möguleika ungmenna til að stunda íþrótta- og tómstundastarf. Fulltrúar ungmennaráðs fluttu málin og bæjarfulltrúar voru til svara.

„Þau mál sem rædd voru á fundinum verða tekin fyrir á vettvangi bæjarráðs og eftir atvikum vísað til fagráða til frekari umræðu og vinnslu,“ segir á vef bæjarins.

Fundinn sátu fyrir hönd ungmennaráðs Anton Bjarni Bjarkason fundarstjóri, Erika Arna N. Sigurðardóttir, Felix Hrafn Stefánsson, Freyja Dögg Ágústudóttir, Haukur Arnar Ottesen Pétursson, Lilja Dögun Lúðvíksdóttir og Telma Ósk Þórhallsdóttir.

Hér má sjá fundargerð bæjarstjórnarfundar unga fólksins.

Upptaka frá fundinum.

VG

UMMÆLI