Norðlenska flugfélagið NiceAir mun ekki hefja flug frá Akureyri á nýjan leik í sumar. Þá hefur öllu starfsfólki flugfélagsins verið sagt upp en 16 einstaklingar störfuðu fyrir NiceAir. Þetta staðfestir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri NiceAir, í samtali við Mbl.
NiceAir tilkynnti í byrjun apríl að félagið myndi gera hlé á starfsemi sinni vegna þess að það missti eina af flugvélum sínum.
„Hvort að við gerum það á óbreyttum forsendum eða breyttum forsendum eða einhverjir aðrir komi inn, þá er stóra málið það að við erum búin að sýna fram á að þetta er vit,“ segir Þorvaldur aðspurður hvort hann telji vera meiri líkur en minni að NiceAir hefji aftur flug.
Hann bætir við að góð nýting hafi verið á flugi NiceAir til Kaupmannahafnar. Þá virðist einnig vera markaður fyrir flug til sólarlanda einu sinni í viku, allt árið um kring.
„En við höldum að með því að geta farið til Bretlands í framtíðinni þá muni viðskiptamódelið bara batna,“ segir hann en nánar er rætt við Þorvald á vef Mbl.
UMMÆLI