Gæludýr.is

Leita að húsnæði fyrir fjölskyldur frá Úkraínu

Leita að húsnæði fyrir fjölskyldur frá Úkraínu

Velferðarsvið Akureyrarbæjar leitar að leiguhúsnæði fyrir þrjár fjölskyldur frá Úkraínu sem væntanlegar eru til Akureyrar í maí. Leitað er að 2ja-4ra herbergja íbúðum en annað kemur líka til greina og eru allar ábendingar vel þegnar. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag.

„Akureyrarbær kappkostar að taka vel á móti flóttafólki sem vill setjast að í bænum, hjálpa því að koma undir sig fótunum og aðlagast samfélaginu okkar. Á innan við ári hafa komið hingað 110 einstaklingar frá Úkraínu og fleiri stríðshrjáðum löndum. Þetta fólk er þakklátt fyrir tækifæri til að hefja nýtt líf í friðsælum bæ og leggur hart að sér við að aðlagast lífinu í nýjum heimahögum. Það kann vel að meta þann stuðning sem því er sýndur og þakkar vinsamlegar móttökur bæjarbúa. Börnin fara í skóla þar sem þau eignast nýja vini og fullorðna fólkið vill komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn,“ segir á vef bæjarins.

Von er á enn fleira fólki á næstu vikum og mánuðum og í maí koma þessar þrjár fjölskyldur sem bráðvantar húsnæði fyrir.

Ef þú ert með mögulegt leiguhúsnæði, vinsamlegast hafðu þá samband með því að senda tölvupóst á netföngin embla@akureyri.is eða drifabda@akureyri.is.

VG

UMMÆLI