NTC

Guðmundur Ármann og Ragnar Hólm opna páskasýningu í Deiglunni

Guðmundur Ármann og Ragnar Hólm opna páskasýningu í Deiglunni

Guðmundur Ármann Sigurjónsson og Ragnar Hólm opna páskasýninguna „Upp, upp, mín sál“ í Deiglunni á Akureyri á skírdag, fimmtudaginn 6. apríl klukkan 14. Guðmundur sýnir geomatrískar grafíkmyndir og stærri olíumálverk en Ragnar abstrakt expressjónísk verk sem unnin eru með olíu á striga og akrýl á pappír.

„Þegar við fréttum að Deiglan hefði losnað um páskana og þar yrði engin sýning að þessu sinni þá sáum við að við svo búið mætti ekki standa. Margir leggja land undir fót þessa löngu helgi og þess er vænst að bærinn fyllist af fólki. Það er því betra að það sé nóg um að vera,“ segja Guðmundur og Ragnar í samtali við heimasíðu Deiglunnar.

Titill sýningarinnar er vísun í Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem eru órofa tengdir páskahátíðinni á Íslandi. „Upp, upp, mín sál og allt mitt geð“ finnst okkur vera vel við hæfi nú þegar vorið er á næsta leiti með betri tíð og blóm í haga.

Á sýningunni verðum við með ný og áður óséð verk en líka nokkur olíumálverk sem hafa verið nýlega á sýningum bæði í Reykjavík og á Dalvík,“ segja félagarnir um sýninguna í Deiglunni.

Sýningin í Deiglunni verður opin klukkan 14 til 17 frá skírdegi fram á páskadag, 6. til 9. apríl.

Sambíó

UMMÆLI