Ingibjörg Isaksen skrifar
Öldrun er óumflýjanlegur hluti af lífinu, þegar við eldumst söfnum við að okkur þekkingu, lífsreynslu og visku sem getur verið okkur sjálfum og öðrum dýrmæt. Þakklæti, sterkari og dýpri tengsl við fjölskyldu, vini og ástvini og ekki síður oft og tíðum aukinn tími til að sinna áhugamálum sem veita ánægju og aukna lífsfyllingu.
Það eru margir kostir sem fylgja því að eldast, en einnig áskoranir. Með hækkandi aldri er ekki ósennilegt að fólk þurfi aðstoð og stuðning við dagleg verkefni, sér í lagi þegar heilsan tekur upp á að bregðast. Þörfin fyrir aðstoð verður stundum meiri með aldrinum og því er mikilvægt að fólk hafi möguleika á að þiggja þjónustu sem það getur treyst á. Þjónustu sem eykur öryggi, lífsgæði, valdeflir og mætir þjónustuþörf eins og best verður á kosið hverju sinni. Þegar við spyrjum eldra fólkið okkar út í óskir sínar eru svörin oftast á þá leið að einstaklingurinn vill geta búið heima eins lengi og kostur er. En svo það sé mögulegt verðum við að skapa aðstæður sem styðja við þeirra óskir.
Um mitt ár 2019 var undirritaður samningur milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) sem fól m.a. í sér heimild til að hefja nýsköpunar- og þróunarverkefni um sveigjanleg dagdvalarrými. Þar var áhersla lögð á þverfaglega teymisvinnu til að skapa markvissa og öfluga starfsemi. Sveigjanleg dagdvöl sem var þjónusta alla daga, allan ársins hring sem aðlagaði sig þörfum einstaklingsins. Áhersla var lögð á að styðja notendur dagþjálfunar til sjálfstæðis og sjálfræðis, ásamt því að efla færni og sjálfsbjargargetu heima og í dagþjálfun.
Sveigjanleg dagþjálfun
Hugmyndafræði dagþjálfunar eða dagdvalar er að vera stuðningsúrræði við eldra fólk sem býr í heimahúsum. Markmiðið með þjálfuninni er að viðhalda færni og getu fólks til að búa áfram heima og er ávinningurinn af því að koma í veg fyrir eða seinka vistun á hjúkrunarheimili. Fjölbreytni og sveigjanleiki úrræða skiptir höfuðmáli og veitir sveigjanleg dagþjálfun margvíslegan ávinning sem getur hjálpað til við að auka lífsgæði.
Einn af helstu kostum þessarar þjónustu er möguleikinn til að hlusta á það sem eldra fólkið vill og sníða þjónustuna að þess áherslum. Þjálfun sem þessi getur veitt verulegan ávinning m.a. með bættri andlegri og tilfinningalegri líðan. Fjölskyldumeðlimir eru oft og tíðum þeir aðilar sem bera ábyrgð á eldri ástvinum sínum og það getur á tímum verið krefjandi.
Með því að nýta sveigjanlega dagþjálfun geta umönnunaraðilar dregið sig í hlé og sinnt sínum verkefnum á sama tíma og þeir vita að ástvinir þeirra fá þá umönnun sem þörf er á. Þá hefur félagsleg einangrun verið vandamál meðal eldra fólks, sérstaklega þeirra sem búa einir eða hafa takmarkaða hreyfigetu. Með sveigjanlegri dagþjálfun aukast samskipti við aðra sem getur hjálpað til við að koma í veg fyrir einmanaleika, kvíða og þunglyndi.
Verkefnið hefur skilað árangri
Verkefnið hefur skilaði sýnilegum árangri, það er ótvíræður ávinningur af sveigjanlegri dagþjálfun í formi bættra lífsgæða fyrir notendur og fjölskyldur þeirrar. Notendur, aðstandendur og starfsfólk eru að mestu sammála um að úrræðið hafi bætt andlega líðan og hafi stuðlað að viðheldni og jafnvel framförum í líkamlegri færni og getu. Úrræðið er nú þegar orðinn mikilvægur hlekkur í þróun millistigsúrræða í þjónustu við aldraða.
Rauði þráðurinn í niðurstöðum framangreinds nýsköpunar- og þróunarverkefnis var að umsóknum um hjúkrunarrými fækkaði. Þátttakendum fannst þeir fá þjónustu sem veitti þeim tækifæri til að geta búið lengur heima við öryggi, þar sem þeim var tryggð sú aðstoð sem þeir þurftu á að halda.
Þá upplifðu aðstandendur þeirra sem tóku þátt í verkefninu einnig aukið öryggi. Hér er um að ræða þjónustu sem festa þarf í sessi til framtíðar.
Vilji til að þjónusta eldra fólk
Samsetning mannfjöldans á Íslandi er að þróast á þann veg að hlutfall eldra fólks hækkar frá því sem áður var og við þurfum að tryggja að kerfin okkar verði tilbúin til þess að styðja við þennan stækkandi hóp. Það getum við gert með því að koma til móts við fólk með fjölbreyttum úrræðum og þjónustu. Ný viðhorf í þjónustu við eldra fólk þar sem áhersla er lögð á aldursvænt og styðjandi samfélag munu leiða okkur að betri samfellu og sterkari heildarsýn fyrir þjónustu við eldra fólk.
Ávinningurinn af aðgerðum sem þessum dregur úr álagi á ýmsum sviðum heilbrigðismála eins og t.d. heilsugæslu, félagsþjónustu og hjúkrunarheimilum. Auk þess með því að veita eldra fólki þjónustu við hæfi og þörf hverju sinni verða meiri líkur á auknum lífsgæðum og sjálfstæði eldra fólks.
Markmiðið stjórnvalda er að bæta lífsgæði eldra fólks með því viðhalda færni og virkni einstaklingsins og þar spila forvarnir, heilsuefling og endurhæfing stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar. Það sýnir sig einna best í þingsályktunartillögu sem er nú í meðförum Alþingis.
Um er að ræða aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem ætlað er að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt.
Um er að ræða aðgerðaáætlun til fjögurra ára og er markmiðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu.
Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars 2023.
UMMÆLI