Knattspyrnudómarafélag Norðurlands, KDN, gaf allan aðgangseyri frá úrslitaleik Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu til Krabbameinsfélags Akureyrar í morgun. Leikurinn fór fram síðasta laugardag þegar KA og Þór mættust í Boganum. Leiknum lauk með sigri KA, 3-0.
Sjá einnig: KA vann Kjarnafæðimótið sjötta árið í röð
Allir leikmenn og þjálfarar beggja liða ásamt dómurum leiksins borguðu sig inn á leikinn líkt og áhorfendur.
Á vef Vikublaðsins segir að Aðalsteinn Tryggvason, formaður KDN, og Patrik Guðmundsson, stjórnarmaður KDN, hafi í morgun afhent Evu Óskarsdóttur, markaðs- og móttökustjóra hjá Krabbameinsfélaginu 200 þúsund krónur sem söfnuðust á leiknum.
„Leikurinn var mikil skemmtun og var virkilega góð mæting á leikinn. Eins og fram hefur komið rennur allur aðgangseyrir til Krabbameinsfélag Akureyrar. Leikmenn hjá báðum liðum ákváðu allir sem einn að borga sig inn á leikinn og að sjálfsögðu gerðu dómarar leiksins slíkt hið sama. Strákarnir eiga mikið hrós skilið fyrir það og þökkum við þeim sem og öðrum bæjarbúum stuðninginn,“ segir á Facebook síðu KDN.
UMMÆLI