NTC

Hefur safnað tæplega 3 milljónum króna í Mottumars

Hefur safnað tæplega 3 milljónum króna í Mottumars

Helgi Rúnar Bragason hefur náð eftirtektarverðum árangri í Skeggkeppni Mottumars undanfarin tvö ár. Samanlagt hefur hann safnað tæplega 3 milljónum króna. Helgi Rúnar og eiginkona hans Hildur Ýr Kristinsdóttir litu við hjá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík í vikunni og ræddu við heimasíðu félagsins um krabbameinsgreiningu Helga Rúnars, Round Table félagsskapinn og mikilvægi þess að gefa af sér. Viðtalið má sjá í heild sinni með því að smella hér.

„Ég er ótrúlega hreykinn af stuðningnum sem ég hef fengið. Það er gaman að geta skilið svona framlag eftir sig, því þá finnst manni eins og maður sé ekki bara að þiggja heldur líka að gefa. Ég er svolítið meira þannig í eðli mínu. Mér finnst auðveldara að gefa heldur en þiggja,“ segir Helgi Rúnar.

Helgi Rúnar greindist með illkynja krabbamein við tungurót í júní 2021. Hann leitaði til læknis vegna verks í eyra og þau hjónin eru sammála um að allt hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig um leið og meinið uppgötvaðist. „Þegar við hittum lækni var búið að undirbúa allt. Búið að panta tíma hjá tannlækni og næringarfræðingi og svo vorum við bara leidd áfram,“ segir Hildur Ýr.

Helgi Rúnar fór í kjölfarið í 35 geislameðferðir, 6 lyfjameðferðir og aðgerð til að uppræta meinið. Því miður greindist nýtt ólæknandi mein í nefholi stuttu síðar og um þessar mundir er Helgi Rúnar í tíu skipta geislameðferð á ný til að létta á þrengslum í nefholinu og bæta lífsgæði hans.

Þau hjónin hafa nýtt þjónustu Krabbameinsfélagsins og Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og bera félögunum vel söguna.

„Við höfum sótt ýmis námskeið, auk þess sem okkur bauðst að fara í endurnærandi helgarferð til Húsavíkur í febrúar á vegum Krabbameinsfélags Akureyrar og Sjálfsræktar. Svo höfum við aðgengi að ráðgjafa fyrir norðan og höfum nýtt það. Aðstaðan er mjög góð, gott að koma í hús og maður veit að maður er alltaf velkominn aftur.“ Að auki nýttist íbúð Krabbameinsfélagsins þeim á meðan Helgi Rúnar lá inni á spítala í fimm vikur, en Hildur Ýr gat þá verið nálægt spítalanum á meðan.

Hjónin ræða meira um Roundtable félagsskapinn og Mottumars átakið í viðtalinu sem má finna í heild á vef Krabbameinsfélagsins. Söfnunarsíðu Helga Rúnars í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér.

VG

UMMÆLI