Grímseyjarferjan Sæfari fer í slipp vegna viðhalds í næstu viku. Síðasta ferð Sæfara til og frá eyjunn var síðasta föstudag, 17. mars.
Líklegt er að viðgerðir á ferjunni taki 6-8 vikur og því má reikna með því að ekki verði hægt að ferðast með ferjunni á ný fyrr en í maí.
Á því tímabili siglir fiskiskipið Þorleifur með varning til og frá eynni fjórum sinnum í viku. Farþegaflutningum verður sinnt með áætlunarflugi. Flugferðum verður fjölgað úr þremur í fjórar í viku og þær niðurgreiddar fyrir íbúa.
Hægt verður að ferðast á þriðjudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum. Í Grímsey er stoppað frá um 20 mínútum og upp í 2 klukkustundir, allt eftir dögum. Flugið kostar frá 22.500 krónum fram og til baka og er á vegum flugfélagsins Norlandair. Flogið er frá Akureyrarflugvelli. Nánari upplýsingar má finna á vef flugfélagsins, sjá www.norlandair.is.
Halla Ingólfsdóttir, formaður hverfisráðs Grímseyjar, segir í samtali við fréttastofu RÚV að tímasetningin á yfirhalningu skipsins sé einkar slæm, enda sé ferðaþjónustutímabilið þá þegar hafið.
„Þetta eru náttúrlega engar óska niðurstöður en þetta eru niðurstöðurnar og við verðum bara að sætta okkur við þær, það er lítið annað sem við getum gert. Óskastaðan hjá okkur hefði verið að fá sex flug í viku,“ segir Halla í samtali við RÚV.
UMMÆLI