Þriðji dagur Unbroken deildarinnar var haldinn í Mjölni MMA í Reykjavík um síðastliðna helgi. Unbroken deildin er mót þar sem fólk sem æfir Jiu-jitsu, brasilíska uppgjafarglímu (BJJ), keppir í getu-, kynja- og þyngdarflokkum. Á mótinu er keppt í nogi, eða án galla, og snýst glíman um að ná uppgjafartaki (hengingu eða lás) á andstæðinginn. Fyrri hluti mótsins var tekinn á þremur dögum í janúar og febrúar, síðasti dagurinn var um helgina 11. mars. Alls voru 97 keppendur skráðir til leiks – en þar kepptust þátttakendur í hverjum flokki fyrir sig um sæti í úrslitum, sem haldin verða í Tjarnarbíó þann 3.júní.
Í úrvalsdeild karla léttari en 77kg áttu Akureyringar báða fulltrúana sem komust áfram í úrslitin. Svartbeltingurinn Vilhjálmur Arnarsson, þjálfari hjá Brimir BJJ á Akranesi, tók fyrsta sætið með 26 stig. Eftir erfiðar, spennandi og tæknilegar glímur náði hinn tuttugu og eins árs Breki Harðarson öðru sætinu með 23 stig, sem einnig tryggði honum sæti í úrslitum. Vilhjálmur og Breki munu því mætast í úrslitum þann 3. júní næstkomandi.
Breki æfir hjá Atlantic, jiu-jitsu klúbbnum á Akureyri. Hann þykir afar efnilegur í íþróttinni en hann skartar fjólubláu belti eftir tæplega þriggja ára þjálfun. Hann er með bakgrunn í fimleikum sem hefur nýst honum vel. Breki á að baki 6 sigra, 2 jafntefli og 1 tap á BJJ mótum síðustu ára og stefnir langt.
Halldór Logi Valsson sem æfir nú hjá Mjölni mun keppa til úrslita í -99kg flokki. Anna Soffía Víkingsdóttir, mun þá keppa til úrslita í +70kg flokki.
UMMÆLI