Gagngerar breytingar verða gerðar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt tillögum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingarnar miða að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og mæta miklum breytingum sem hafa orðið í samfélaginu.
Í samráðsgátt eru hvort tveggja til umsagnar drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins. Frestur til að skila umsögn er til og með mánudags 27. mars 2023.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga. Síðustu ár hafa framlög úr Jöfnunarsjóði vegið um 13% af samanlögðum heildartekjum sveitarfélaga.
UMMÆLI