Framsókn

Takmarkið að ekkert nýtilegt fari til spillis hjá mötuneyti AkureyrarbæjarSveinn Thorarensen matreiðslumeistari í mötuneyti Akureyrarbæjar. Mynd: Akureyri.is

Takmarkið að ekkert nýtilegt fari til spillis hjá mötuneyti Akureyrarbæjar

Sveinn Thorarensson stendur vaktina í mötuneyti Akureyrarbæjar í Ráðhúsinu við Geislagötu og á skrifstofum bæjarins við Glerárgötu. Hann berst gegn matarsóun og vill leggja sitt af mörkum til að sporna gegn henni í sinni daglegu vinnu. Sveinn var til viðtals á heimasíðu bæjarins þar sem hann sagði frá vinnunni og áhuga sínum á umhverfisvernd.

„Rekstur á mötuneyti er býsna flókin og umfangsmikil starfsemi. Sveinn matreiðir allt að 1.200 máltíðir á mánuði fyrir að meðaltali 60 manns á dag. Eitt af grundvallaratriðum í nýtnistefnu Sveins er að senda út matseðil vikulega þar sem fólk skráir sig fyrir máltíðum vikunnar á eftir. Þannig getur hann fylgst nokkuð nákvæmlega með eftirspurninni hvern og einn dag, pantað hráefni í samræmi við það og komið í veg fyrir matarsóun,“ segir í umfjöllun Akureyrarbæjar.

„Stefna mín er að kaupa sem mest frá aðilum sem stuðla að sjálfbærni og bjóða fjölbreytt og næringarríkt fæði. Það þarf að vanda hráefnisvalið og hugsa út frá ferskleika, nýtingu og geymslu. Ferska grænmetið sem ég kaupi beint frá bónda er næringarríkara og geymist betur en innflutt. Ég ákvað líka að hafa kjötlausan dag einu sinni í viku til að minnka kolefnissporið og það er mjög vinsælt. Það er líka markmið mitt að hafa salatbarinn sem girnilegastan og það dregur líka úr kjötneyslu,“ segir Sveinn.

Svenni vekur athygli á því að Umhverfisstofnun haldi úti vefnum „Saman gegn sóun“ þar sem sé að finna ýmsar mjög skýrar upplýsingar og ráð gegn matarsóun. Sjálfur hefur hann setið málþing um betri nýtingu á matvælum og sótt fjölmörg námskeið um efnið. Þetta er augljóslega eitt af hans helstu áhugamálum og gerir vinnuna í eldhúsinu ennþá áhugaverðari og skemmtilegri.

Nánar er rætt við Svein á vef bæjarins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó