Steinsmiðja Akureyrar hefur gefið Akureyrarbæ og Akureyringum fjóra veglega granítbekki sem komið hefur verið fyrir á miðbæjarsvæðinu og í Innbænum. Þetta kemur fram á vef bæjarins.
„Bekkirnir eru viðhaldsfríir og hitna ofurlítið í sólinni. Því getur verið notalegt að tylla sér á þá til að hvíla lúin bein en þó ber að hafa í huga það sem letrað er framan á setur bekkjanna, nefnilega að tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Birnir Vignisson, eigandi Steinsmiðju Akureyrar, segir á vef Akureyrarbæjar, að sér hafi einfaldlega fundist að þessir bekkir yrðu mikil prýði við fallega göngustíga sem sé að finna víða um bæinn.
„Það leynir sér ekki að fólk er í auknum mæli á ferðinni gangandi eða hjólandi eftir því sem þessum frábæru göngustígum fjölgar. Ástæðan fyrir gjöfinni er sú að mér þykir vænt um bæinn minn og langaði að leggja eitthvað af mörkum til að fegra hann enn frekar,“ segir Birnir.
Akureyrarbær óskaði eftir að tilvitnanir í eyfirsk skáld prýddu bekkina en á einum þeirra er rauða hjartað sem að einhverju leyti er orðið tákn bæjarins. Á öllum bekkjunum er síðan orðatiltækið góða: „Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest.“
Skáldin sem vitnað er til eru Davíð Stefánsson, Kristín Sigfúsdóttir og Matthías Jochumsson. Einn bekkurinn er í göngugötunni, annar við göngustíginn vestan Leirutjarnar í Innbænum, sá þriðji á Samkomubrúnni og sá fjórði nokkru sunnar við Drottningarbrautarstíginn
UMMÆLI